24/8

Bláberja og sólberjasulta

Færsla skrifuð 24. ágúst 2016

Síðsumars og á haustin reynum við mæðgur að komast að minnsta kosti tvisvar í berjamó. Við förum í eina rólegheitaferð með litlu krílin og njótum útivistar og samverunnar með þeim. Svo förum við sjálfar í aðra ferð til að safna vel í sarpinn fyrir veturinn.

Berin eru snemma á ferðinni í ár. Um helgina fórum við með krakkana í góðu veðri út fyrir borgarmörkin og tíndum dásamleg bláber og krækiber. Hvílík gæðastund! Okkur finnst gott ráð að hafa ílátin í minni kanntinum þegar yngsta kynslóðin er með í för, svo auðveldara sé að ná botnfylli, það er svo hvetjandi. Svo geta allir hellt uppskerunni í sameiginlegt stærra ílát og haldið ótrauðir áfram að safna. Stundum vilja börnin helst tína berin beint upp í munn, okkur finnst það frábært, enda verður maturinn ekki mikið ferskari en beint af lynginu. Við héldum bláberjaveislu strax og heim var komið, helltum berjum í skálar og þeyttum kókosrjóma til að setja út á. Úr afgangnum suðum við svolitla sultu.

Bláber og krækiber eru margrómuð fyrir hollustu, auðug af vítamínum, steinefnum, trefjaefnum og öðrum hollustuefnum. Hægt er að lesa meira um heilsusamlega eiginleika berjanna hér á síðu Landlæknisembættisins. Við sem búum hér á landi erum svo ótrúlega heppin að hafa aðgang að þessum villtu gersemum, alveg ókeypis. Hvílíkur lúxus! Í okkar huga eru útivistin og samveran þó ekki síður mikilvægur partur af hollustu berjanna.

Yfirleitt frystum við stóran hluta uppskerunnar til að nýta síðar. Við stráum frystum berjum út á morgungrautinn, notum þau í hristinga, stundum í eftirrétti og sjóðum nýjan skammt af sultu þegar okkur langar. 

Okkur finnst bragðið af berjunum njóta sín betur ef sultan er ekki dísæt. Við notum krydd eins og kanil, vanillu og engifer til að gefa sultunni gott bragð og minnka sykurþörfina. Og oft veljum við döðlur eða aðra þurrkaða ávexti í staðinn fyrir unninn sykur. Hér áður fyrr var sykur mjög gagnlegur til að auka geymsluþolið, en nú til dags hafa flestir aðgang að frystikistu eða frystihólfi og því er raunhæfur valkostur að minnka sykurmagnið í sultum alveg heilan helling. Það er eiginleg synd að drekkja hollustu berjanna í of miklum sykri. Í sultugerð hefur algengt hlutfall sykurs og berja verið 50/50. Bragðsins vegna er það alls ekki nauðsynlegt og alveg óhætt að minnka sykurinn allavega niður í 30/70, sultan mun bragðast ljómandi vel. Gott er að muna að sykurminni sultur hafa styttra geymsluþol. Því er upplagt að frysta hluta af sultunni eða sulta minni skammta í einu og útbúa svo aftur sultu úr frystum berjum síðar.

Í ár útbjuggum við bláberja og sólberjasultu, sætta með döðlum. Sólberin gefa gott súrsætt bragð sem blandast vel við mild bláberin. Við frystum hluta af sultunni til að nota sem fyllingu í ómótstæðilega berjapæju seinna. 

(Ef þið eigið ekki sólber gætuð þið haft gaman af uppskrift sem við birtum hér á blogginu fyrir tveimur árum: bláberjasulta með chiafræjum og túrmerik. Og ef þið tínið krækiber í ár þá er hér mjög góð sykurlaus krækiberjasaft). 

Bláberja og sólberjasulta

Uppskriftin

1 kg bláber
1 kg sólber
750g lífrænar döðlur, skornar í bita
2 msk engiferskot (eða 4 cm biti af ferskum afhýddum engifer)
2 tsk vanilluduft 
1 tsk kanill
1 tsk sjávarsaltflögur
1/2 tsk chili

Aðferðin

  1. Byrjið á að setja bláberin og sólberin í pott og látið suðuna koma upp við vægan hita. Hrærið í annað veifið.
  2. Þegar suðan er komin upp er engiferskoti, vanillu, kanil, sjávarsalti og chili bætt út í og látið sjóða í 30 mín.
  3. Á meðan sultan sýður er gott að mauka döðlurnar í matvinnsluvél, oft þarf að bæta svona 1-2 msk af vatni út í til að þær maukist þokkalega. (Hægt er að saxa döðlurnar í litla bita í staðinn fyrir að mauka).
  4. Bætið döðlumaukinu í pottinn og látið sultuna sjóða í 20-30 mín í viðbót, hrærið í svo hún brenni ekki.

comments powered by Disqus