18/9

Bláberja pæjur

Færsla skrifuð 18. september 2015

mynd Hinrik Þór Ágústsson

Nú eru margir komnir úr berjamó með krukkur og frystikistur fullar af nýtíndum berjum. Þvílíkur lúxus að geta skroppið upp í fjallshlíð og tínt næringarrík villt ber! Berin eru holl og góð, en hluti af hollustunni er án efa fólginn í útiverunni, tengingunni við náttúruna og samverustundum með börnunum. 

Aldrei þessu vant gáfum við okkur ekki tíma fyrir í berjamó í ár, en okkur klæjar engu að síður í fingurna að útbúa eitthvað gott úr berjum, eins og við erum vanar á þessum árstíma. Í fyrra löguðum við dásamlega bláberjasultu og meinholla krækiberjasaft úr berjum sem við tíndum sjálfar. Í vikunni keyptum við okkur bakka af nýtíndum íslenskum bláberjum og útbjuggum þessar dýrindis bláberjapæjur. Mmmm.... 

Bláberja pæjur

Botn
1 b pekanhnetur
1 b mórber
¼ tsk vanilla
1 msk kókosolía

  1. Setjið pekanhnetur, mórber og vanillu í matvinnsluvél og blandið saman.
  2. Setjið kókosolíuna útí og klárið að blanda þar til þetta klístrast saman. 
  3. Þjappið niður í 6 lítil form.

Fylling
2 b bláber
1 ½ b kasjúhnetur sem eru búnar að liggja í bleyti í 2 klst
1 msk sítrónusafi
1 msk hlynsíróp
3 msk kókosolía
smá sjávarsaltflögur

  1. Setjið bláberin í blandara og blandið þar til þau maukast.
  2. Bætið þá kajsúhnetunum útí ásamt sítrónusafa og hlynsírópi og blandið vel. Ef blandarinn ykkar er lúinn má nota matvinnsluvél.
  3. Endið á að setja kókosolíuna útí ásamt sjávarsaltinu og klárið að blanda.
  4. Hellið yfir botnana og setjið inn í frysti og látið stífna.
  5. Skreytið með ferskum berjum og berið fram með kókosrjóma, eða þeim rjóma sem ykkur finnst bestur.

Kókosrjómi - 2 aðferðir
Setjið innihald úr 1 dós af kókosmjólk í blandara ásamt smá vanillu og blandið vel. Hellið þessari blöndu í rjómasprautu og setjið gashylki í. Til búið.
EÐA
Setjið 1 dós af kókosmjólk inn í ísskáp í nokkrar klukkustundir, opnið dósina og setjið þykka hlutann af kókosmjólkinni í hrærivél ásamt smá vanillu og þeytið eins og þið gerið við venjulegan rjóma.

comments powered by Disqus