7/9

Bláberjasulta

Færsla skrifuð 7. september 2014

Ég hef verið svona sex ára þegar við fórum einu sinni sem oftar í bláberjamó og útbjuggum sultu þegar heim var komið. Þetta árið var mamma smá á harðlínunni og vildi ekki sjá örðu af sykri í sultuna. Bara ber og krydd og ekkert annað. Ég man ennþá bragðið af sultunni, sem var borin fram á súrdeigsrúgbrauði með tahini og soðnum gulrótum... ég man líka eftir að hafa ranghvolft augunum smá yfir soðnu gulrótunum. Þetta bragðaðist samt stórvel (alveg satt) eins og reyndar allt sem mamma útbýr. Mig rámar þó í að hafa beðið ömmu um að sjá um sultugerðina næsta ár. Hildur

Bláber eru rómuð fyrir jákvæða eiginleika, en auk góðra næringarefna innihalda þau litarefni með andoxunarvirkni, kölluð anthocyanin. Hér má til gamans sjá umfjöllun grasalæknis, læknis og næringarfræðings um bláber. Þurrkuð bláber eru stemmandi, Amma Hildur á alltaf til þurrkuð bláber ef einhver í fjölskyldunni fær í magann. Hún sýður úr þeim bláberjasúpu með kuzu og magapínan lagast oftar en ekki. Amma Hildur er líka sultumeistari fjölskyldunnar. Hún hefur í gegnum tíðina gert dásamlegar sultur úr sólberjum, stikilsberjum, bláberjum, rifsberjum, rabarbara... og örugglega einhverju fleiru. Hún hefur alltaf notað miklu minna magn af sykri en almennt tíðkast, en bætir það upp með kryddi eins og vanillu, kanil eða engifer og stundum notar hún þurrkaða ávexti sem sætugjafa í stað þess að nota hreinan sykur. Þegar bragðlaukarnir venjast á svona góðar sultur verða búðasulturnar fljótlega allt of sætar. Algengt er í sultugerð að hlutfall sykurs og berja sé 50/50. Sykurinn eykur geymsluþol sultunnar, en nú þegar flestir eiga frysti eða frystikistu er eiginlega óþarfi að sykra svona mikið, það er annað hvort hægt að frysta sykurminni sultur eða frysta hreinsuð ber og útbúa aftur sultu síðar. Eitt er víst og það er að sultur þurfa ekki að vera svona sætar á bragðið. Yfirleitt er alveg feykinóg að hafa hlutföllin a.m.k. 70/30 ber/sykur án þess að það komi niður á bragðinu. Það er eiginleg synd að drekkja hollustu berjanna í of miklum sykri.

Berjatíðin hefur staðið yfir undanfarnar vikur og nú fer hver að verða síðastur að finna bláber, en það er vel hægt með góðum vilja. Sú yngri fann svolítið af bláberjum í fjallshlíð við höfuðborgarsvæðið fyrir stuttu, en uppskeran var þó rýrari en oft áður. Berin hurfu fljótt upp í munn og ofan í maga og aðeins örfá náðu alla leið í sultupottinn. Í ár ákváðum við mæðgurnar að sultan yrði svona millivegur af sultunni hennar Ömmu Hildar og harðlínu- sultunni forðum, þ.e.a.s. mjög hóflega sæt, en vel krydduð. Viti menn, þessi sulta er algjört æði! Chiafræin gera sultuna þykka eins og sulta á að vera, ekkert annað hleypiefni þarf. Kryddin, mórberin og kókospálmasykurinn gefa sultunni góða dýpt. Útkoman er dásamleg.

Nýtínd íslensk bláber hafa fengist í ýmsum verslunum undanfarið, fyrir þá sem ekki hafa náð í berjamó í ár. Svo er líka hægt að útbúa sínar eigin sultur úr nánast hvaða ávöxtum sem er, ferskum eða frosnum, allt árið um kring og ákveða sjálfur hversu mikinn sykur maður vill nota.

Uppskriftin

Bláberjasulta

10 dl bláber
1 dl mórber
2-4 msk kókospálmasykur eða sæta að eigin vali
safinn úr 1 sítrónu eða 2 msk hreinn sítrónusafi úr flösku
1 vanillustöng
1 kanilstöng
1/2 tsk túrmerik eða 1-2 cm bútur fersk rót
nokkur korn sjávarsalt
væn msk chiafræ, möluð í krydd- eða kaffikvörn

Aðferð
  1. Setjið bláberin í pott ásamt sítrónusafanum, mórberjunum, sætunni, vanillustönginni, kanilstönginni, túrmerikrótinni og nokkrum saltkornum.
  2. Látið suðuna koma upp og bullsjóða og hrærið í 1-2 mín, lækkið undir pottinum og hrærið möluðu chiafræjunum útí og látið malla þar til sultan byrjar að þykkna.
  3. Takið af hellunni og látið standa í smá stund.
  4. Setjið í hreinar krukkur, t.d. gamaldags sultukrukkur sem eru alveg þéttar með gúmíteygju.
  5. Þessa sultu er líka hægt að gera hráa. Þá er gott að nota malaðan kanil og vanilluduft eða dropa, allt sett í matvinnsluvél í staðinn fyrir pott og maukað.

Gestaljósmyndari var Hinrik Þór Ágústsson, mágur Hildar og ljósmyndasnillingur.

Kveðja, sultugrísirnir

comments powered by Disqus