22/9

Bókin er á leiðinni....

Færsla skrifuð 22. september 2015

Nú erum við mæðgur kátar! Bókin sem við skrifuðum saman er komin úr prentun og í okkar hendur!! Mikið ótrúlega er gaman að sjá hana loksins tilbúna á prenti, og fá að koma við hana og fletta henni. Pappírinn er svo fallegur, myndirnar eru listaverk, hönnunin flott. Útkoman er bara alveg eins og við höfðum óskað okkur. Við erum satt best að segja í sjöunda himni! 

Enda einvalalið sem stendur að baki verkinu og mikil gleði ríkjandi. Addi ljósmyndari tók allar fallegu myndirnar sem prýða bókina. Unnur Valdís stíliseraði af einstakri alúð og Einar hjá Leynivopninu sá um hönnunina á þessari fallegu bók. Eintómir snillingar þar á ferð! 

Við fengum líka fullt fullt af hjálp frá góðu fólki, allir vinirnir sem hjálpuðu okkur að elda og prófa réttina eiga miklar þakkir skildar. Og fjölskyldan okkar sem fær heiðursorðu fyrir þolinmæði! Svo verðum við að fá að þakka Sigga Reyn, Einari Þóris og öllu frábæra fólkinu hjá Himneskt, sem gefur bókina út.

Við fögnum útgáfunni núna á fimmtudaginn 24. sept, ykkur er boðið.

Bókin er tvískipt og í fyrrihlutanum er að finna fjölbreyttar uppskriftir fyrir allar máltíðir hversdagsins, sem og hátíðleg tilefni. Kaflarnir heita Árbítur, Að heiman, Skálin, Samverustund og Til hátíðabrigða. 

Seinnihlutinn er tileinkaður árstíðunum og fær hver árstíð sinn kafla. Þar fjöllum við um ýmis árstíðabundin verkefni, gefum uppskriftir sem eiga sérstaklega vel við á ákveðnum tímum árs og innblástur í átt að grænum og umhverfisvænum lífsstíl, í takt við árstíðirnar. 

Bókin er full af allskyns góðgæti og fróðleik, mikilli gleði og fallegum myndum. Það hefur verið alveg ótrúlega gaman að vinna að bókinni og við erum ofsalega þakklátar fyrir að hafa fengið að vinna með öllu þessu yndislega og hæfileikaríka fólki. Nú bíðum við bara spenntar eftir að sjá hvað ykkur finnst! 
Endilega komið og fagnið með okkur á Gló í Fákafeni, fimmtudaginn 24. september kl. 17-19

Kærleikskveðja
Mæðgurnar

comments powered by Disqus