15/10

Byggðu upp þinn eigin morgunsjeik

Færsla skrifuð 15. október 2014

Ég smakkaði grænan sjeik (smoothie) í fyrsta skipti einhvern tíman í 90´sinu, þegar mamma kom heim frá Puerto Rico. Þar hafði hún verið að læra um Lifandi fæði og kenningar Ann Wigmore. Á þeim tíma hafði búst og sjeika menningin ekki náð hápunkti sínum eins og í dag. Fyrsti græni sjeikinn sem mamma bauð uppá innihélt avókadó, spírur, epli, grænt laufmeti, kornspírusafa og söl. Hann var grænn með fjólubláum doppum (sölin) og vinum mínum fannst þetta sérlega dularfullur og framandi matur. Þrátt fyrir augljósa forvitni lagði enginn í að smakka, kannski var það framsetningin, eða kannski var hugmyndin í heild bara of framandi. Í dag hafa flestir smakkað einhverskonar sjeik eða búst, ég hef sporðrennt býsna mörgum sjálf, en þessi fyrsti sjeik hefur staðist tímans tönn og laumar sér reglulega í blandarann eða veitir innblástur að nýjum útgáfum. Hildur

Ráðlegt er að borða minnst hálft kíló á dag af grænmeti og ávöxtum, sem ætti að vera mjög viðráðanlegt fyrir flesta. Við mæðgurnar hugsum sjeika sem eina af mörgum leiðum til þess að viðhalda reglulegri neyslu á grænmeti og ávöxtum og fleiru hollu úr jurtaríkinu. Sjeikar eru fljótlegir og þægilegir í morgunsárið og auðvelt að kippa þeim með sér í nesti. Okkur finnst fínt að fá hluta af grænmetisskammtinum strax með morgunmatnum, en við erum eins og sumir vita alveg sjúkar í grænmeti. Að sjálfsögðu er hægt að njóta þess að borða grænmetið á annan hátt, ef manni finnst það betra þannig.

Græni sjeikinn hennar Ann Wigmore var kallaður orkusúpa og við borðuðum hana yfirleitt með skeið. Eftir á að hyggja var kannski ekki vitlaust að kalla svona sjeik súpu. Það er nefnilega ágætt að hugsa aðeins um hvernig maður borðar sjeika. Þegar búið er að mauka hráefnið tekur það minna pláss en fyrir maukun, það er því gott að staldra við og gera sér grein fyrir hversu mikinn mat maður er í rauninni að borða. Það tekur mun lengri tíma að tyggja það sem fór í sjeikinn án milligöngu blandarans svo við reynum að forðast að þamba drykkinn í einum sopa. Okkur finnst líka gott að tyggja aðeins fyrstu sopana til að koma munnvatninu og meltingunni af stað. Þetta með að tyggja matinn finnst flestum frekar leiðinlegt og gamaldags ráð, en við höfum einhvernveginn alltaf haft óbilandi trú á þvi að það skipti máli. Við hugsum sem sagt um sjeik sem mat, frekar en drykk, það er eins og hann verði saðsamari við það eitt að kollurinn tengi og viti hvað er að fara ofan í magann. Nú hugsa eflaust margir: Ok, það er ekki svona flókið að drekka sjeik! Bara opna munninn og voila..! En það er okkar reynsla að sjeik fer betur í maga ef hann er borðaður í rólegheitum.

Þegar maður er að bisa við að troða sem mestri næringu í eitt glas getur útkoman óvart orðið dularfullt grænbrúnt mauk. Til að gera sjeikinn girnilegri er sniðugt að velja hráefnið að einhverju leiti með litinn í huga. Okkur er ráðlagt að borða af öllum litum regnbogans, en litir regnbogans eru yfirleitt girnilegri hreinir eða tveir og tveir saman, frekar en allir í einum graut.

Við viljum að morgunsjeikinn sé seðjandi og næringarríkur og gefi góða orku inn í daginn, en hann á líka að vera girnilegur og góður á bragðið. Við byrjum á að ákveða grunninn (t.d. möndlumjólk), bætum síðan við grænmeti og ávöxtum sem passa vel saman, svo einhverju til að sæta eða bragðbæta og síðast smá extra bústi ef við erum í þannig stuði. Athugið að auðvitað er hægt að fara allskonar aðrar leiðir, þetta er okkar leið.

1) Grunnurinn Yfirleitt heimagerð jurtamjólk. Grunnurinn hjálpar til við að gera sjeikinn saðsaman og gefur góða áferð. Sumir nota ab-mjólk, skyr eða tilbúna jurtamjólk sem grunn, en við höfum vanist því að nota 3 hluta vatn og 1 hluta fræ/hnetur.

2) Grænmeti Gott er að hugsa út í hversu bragðmikið grænmetið er upp á hvað passar best með því. Spínat er dæmi um grænmeti sem er mjög bragðlítið og auðvelt að "fela" í sjeik, brokkolí er t.d. mun bragðmeira. Síðan er sumt grænmeti sem okkur finnst einfaldlega njóta sín betur í salötum og elduðum réttum og þá erum við ekkert að reyna að troða því í sjeikinn okkar. Þetta er bara smekksatriði.

3) Ávöxtur Ávöxturinn er yfirleitt það sem gefur sjeiknum einkennandi lit og bragð, oft bæði sætt og súrt. Ávextirnir mega vera ferskir eða frosnir, eftir árstíma. Smá sítrónu/lime safi getur gert ótrúlega mikið gagn til að bragðbæta sjeik, súra bragðið mildar sterkt grænt bragð og ýmis yfirgnæfandi eða beisk brögð. 

4) Sæta Í þennan flokk fara mjög sætir ávextir, þurrkaðir ávextir og fleira sem gefur sætt bragð. Við erum alltaf að reyna að gera bragðlaukana minna háða sætu bragði og þess vegna erum við örlítið á bremsunni í þessum flokki. Það fer eftir smekk hvers og eins hversu mikilvægt sæta bragðið er. En allt sem er í þessum flokki inniheldur auk sætunnar líka næringu og trefjar sem er kostur. (Nema stevían, hún inniheldur ekki einu sinni kaloríur svo teljandi sé, en hún viðheldur samt þörfinni fyrir sæta bragðið og þess vegna viljum við ekki ofnota hana heldur). 

5) Krydd Krydd hjálpa til við að gefa drykknum karakter og gott bragð, meira bragð minnkar þörfina fyrir mikla sætu.

6) Extra Þessi flokkur er hugsaður fyrir þá sem vilja bæta einhverju framandi og nærandi út í, en það er ekki nauðsynlegt. Ef þetta extra er eitthvað sem hentar fullorðnum en ekki börnum, eða hentar bara einhverjum einum í fjölskyldunni er sniðugt að bæta því út í eftir á þegar búið er að hella í glös fyrir hina. 

Hugmyndabanki
Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi yfir það sem hægt er að nota í sjeika, en ágætt til að fá hugmyndir.

Grunnur
velja 1-2

Grænmeti
velja 1-2

Ávextir
velja 1-3

Sæta
velja 0-1

Krydd
velja 1-2

Extra
velja 0-2

3 hlutar vatn +
1 hluti eitt af þessu:
möndlur
möndlusmjör
hampfræ
avókadó
brasilíuhnetur
sesamfræ
tahini
chiafræ
hafrar
kasjúhnetur
grænt lauf
spínat
grænkál
rauðrófa
brokkolí
sellerí
agúrka
gulrætur
paprika
fennel
sólblómagrænlingar
rófa
sítróna
lime
greip
appelsína
epli
bláber
jarðaber
hindber
krækiber        
mangó
ananas  
pera
vínber
banani
daðla
apríkósa
mórber
gojiber
lucuma
stevíulauf
stevíudropar

gráfíkjur
rúsínur
ristaður kókos
engifer
turmerik
kanill
kakó
vanilla
basil
kóríander
mynta
steinselja

anís
lakkrísrót  

fennel
hörfræolía
hempolía
þang
baunaspírur
gerlar (t.d.asidofilus)

maca
ashawaganda
moringa
hveitigras
spirulina
chlorella
þitt uppáhald...Við hittumst um daginn og gerðum nokkra litfagra sjeika (þessa á myndinni hér fyrir ofan). Uppskriftirnar koma allar á bloggið. Okkur langar að byrja á uppskriftinni að þessum mjög svo milda morgunsjeik sem var svolítið innblásinn af orkusúpunni forðum daga. 

Uppskriftin

2 1/2 dl vatn 
1/2 avókadó
1 stórt grænkálslauf eða tvö minni (takið stilkinn af) 
1/4 agúrka (ca 10 cm) 
1 grænt epli (skerið kjarnann úr) 
1 msk sítrónusafi (eða safinn úr 1/2 sítrónu) 
(nokkur stevíulauf - við slepptum þeim reyndar)
3 cm biti engiferrót (eða 2 msk engiferskot) 
2 msk alfalfa spírur - eða þínar uppáhalds spírur 

Aðferð

  1. Allt sett í blandara og blandað vel.
  2. Njótið í rólegheitum, prófið að tyggja fyrstu sopana.

Skærgrænar kveðjur
Mæðgurnar

comments powered by Disqus