15/2

Dal

Færsla skrifuð 15. febrúar 2015

Ég heyrði einu sinni sögu úr Himalayafjöllunum. Evrópskir ferðalangar höfðu verið þar í margra daga fjallgöngu, ásamt innfæddum leiðsögumönnum. Þau höfðu borðað Dal í nánast öll mál og var ferðalöngunum farið að finnast nóg um, en fátt annað var í boði. Einn daginn komu þau að litlum veitingastað þar sem talsvert meira úrval kræsinga var á matseðlinum. Nú var tilvalið tækifæri til að gera sér glaðan dag, njóta þess að fá smá tilbreytingu og öllum var boðið að velja sér veislumat. 
Þeir innfæddu litu örsnöggt yfir matseðilinn og pöntuðu sér síðan Dal.

Dal hefur verið uppáhalds réttur okkar mæðgna svo lengi sem við munum og aldrei höfum við fengið leið á því. Þegar við eldum saman kvöldmat verður Dal ískyggilega oft fyrir valinu, bæði við hversdagsleg tilefni og líka sem hátíðarmatur. Okkur er farið að gruna að við höfum alist upp við rætur Himalayafjallanna í fyrra lífi...

Dal er fallegt orð úr Sanskrit, bæði er það samheiti yfir alls kyns þurrkaðar baunir sem hafa verið klofnar í tvennt og er jafnframt notað yfir rétti sem eldaðir eru úr slíkum baununum. Á Indlandi, í Pakistan, Nepal, Sri Lanka, Bangladesh og á fleiri stöðum á svipuðum slóðum er Dal mjög algengur hversdags matur. Útfærslurnar eru óteljandi, enda hugtakið nokkuð opið. Til eru heilu matreiðslubækurnar sem innihalda ekkert nema uppskriftir að Dal, krydduðu á sinn hátt einkennandi fyrir hvert landsvæði fyrir sig. Við grænmetisæturnar hér á norðurslóðum leitum oft innblásturs í matarmenningu þjóða sem hafa lengri og sterkari hefð fyrir grænmetisfæði. Réttir úr baunum skipa þar stóran sess, enda eru baunir næringarrík, saðsöm og ódýr fæða. 

Það eru að sjálfsögðu fleiri en grænmetisætur sem hafa ánægju af grænmetisréttum. Nú er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu jákvætt það er fyrir heilsuna og umhverfið að auka hlut grænmetisfæðis í mataræðinu. Í nýútgefnum ráðleggingum frá Landlæknisembættinu er til að mynda lögð aukin áhersla á fæðu úr jurtaríkinu:

Þessum áherslum fögnum við. Okkur finnst líka sérstaklega ánægjulegt að umhverfisáhrif séu höfð til hliðsjónar þegar ráðleggingar um mataræði eru mótaðar, enda er minni neysla á dýraafurðum mikilvægt skref fyrir þá sem vilja huga að umhverfisvernd. Við sjálfar veljum að vera grænmetisætur vegna þess að það er okkur náttúrulegt, hver og einn verður að velja sína leið. Þessa setningu heyrðum við fyrir nokkrum árum og fannst smá vit í henni:

Ef allir myndu borða helmingi minna kjöt, hefði það sömu áhrif og ef helmingur allra gerðust grænmetisætur.

En aftur að Dal. 
Dal er svona réttur sem við eldum oft þegar fátt er um fína drætti í ísskápnum. Við eigum alltaf til linsur ofan í skúffu og svo er yfirleitt til hvítlaukur, sítrónusafi og eitthvað grænmeti í ísskápnum. Þá er hægt að útbúa Dal. 

Með Dalinu finnst okkur gott að bera fram gróft pönnubrauð, raitu og ferskan kóríander. Og ef við ætlum að bjóða gestum í veislumat er gott að bæta við hrísgrjónum og grænu salati til að drýgja máltíðina. En Dalið getur líka alveg staðið eitt sem máltíð ef við erum í skapi fyrir einfaldleika.

Í rauninni er þetta ofur einfaldur matur að útbúa. Það er þó gott að ákveða í hvaða röð hlutirnir eru gerðir áður en hafist er handa. Best er að byrja á því að setja sætar kartöflur inn í ofn og láta þær bakast vel og lengi við hóflegan hita, þá verða þær svo dásamlega mjúkar og bráðna í munninum. Þegar sætu kartöflurnar eru komnar inn er mál að útbúa hvítlauksolíuna og setja Dalið af stað, en það eldar sig eiginlega sjálft. Á meðan Dalið mallar í rólegheitum í pottinum er nægur tími til að útbúa raitu og pönnubrauð, ef maður er í stuði fyrir það, eða sjóða hrísgrjón og skella í salat.Uppskriftin 

Dal, pönnubrauð og raita 
passlegt fyrir u.þ.b. 4 fullorðna.


Sætar kartöflur
1 meðalstór/stór sæt kartafla, flysjuð og skorin í passlega bita
1 msk olía (má sleppa, við notuðum kókosolíu því hún gefur svo gott bragð)
1/2 dl vatn

Bakið við 170°C í 40-60 mín, hreyfið aðeins við þeim nokkrum sinnum. Það er svolítið misjafnt eftir ofnum og stærð bitanna hversu lengi þær þurfa að vera inni, fylgist bara með að þær brenni ekki við. 

Hvítlauksolía
Í indverska matargerð er hefðbundið að nota ghee (hreinsað smjör) en við notum yfirleitt jómfrúar ólífuolíu í staðinn. Við látum niðursneiddan hvítlauk standa í ólífuolíunni á meðan við eldum matinn og hellum svo dásemdar hvítlauksolíu út á rétt áður en maturinn er borinn fram.

Dal
1 meðal stór laukur
2 hvítlauksrif
2 msk engiferskot (eða engiferbútur skorinn í smáa bita)
1 1/2 msk lífrænt Madras Karrý, líka hægt að nota Garam Masala
1 tsk turmerik
1 msk góð olía (okkur fannst kókosolía passar vel hér)
1 lítið blómkálshöfuð eða 1/2 stórt, skorið í munnbita
250g rauðar linsur, lífrænar (1/2 poki)
1 dós kókosmjólk
400-500 ml vatn (hægt að nota bara vatn ef vill - þá ca 800 ml, en kókosmjólkin gefur dásamlega áferð)
1 1/2 tsk sjávarsalt
3-4 tsk sítrónusafi
Cayenne pipar eftir smekk
Vænn slurkur af hvítlauks-ólífuolíu

Byrjið á að saxa niður lauk og hvítlauk, hitið í 2 mín í botni pottsins í olíunni, með engiferskotinu og Madras karrý. Þetta er gert til að opna bragðið af kryddunum. Bætið svo blómkálsbitunum út í, því næst linsunum og vökvanum. Látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann þannig að allt malli í rólegheitum í u.þ.b. 20mín - eða þar til blómkálið er orðið mjúkt og linsurnar orðnar að smá kássu. Hrærið í af og til og fylgist með að brenni ekki í botninn. Hafið pottinn opinn, en ekki of háan hita. (Á meðan Dalið mallar í pottinum er tilvalið að hræra í raítu og útbúa roti pönnubrauð). Í lokin, þegar Dalið er tilbúið, bætið þá saltinu, sítrónusafanum, cayenne pipar og vænum slurk af hvítlauksolíunni út í. Smakkið Dalið, ef ykkur finnst það mega vera bragðmeira bætið við smá auka salti, sítrónusafa eða hvítlauks ólífuolíu.

Raita
1 bolli jurtajógúrt (hefðbundin raita er gerð úr jógúrt eða AB-mjólk)
1/3 agúrka, skorin í bita eða rifin með rifjárni
1 hvítlauksrif, pressað
Blandið öllu saman í skál.

Roti (pönnubrauð)
2 1/2 dl gróft spelt eða lífrænt heilhveiti
1 tsk vínsteinslyftiduft (má sleppa)
5 msk vökvi, t.d. jurtamjólk eða jurtajógúrt og volgt vatn til helminga.
1 msk ólífuolía

Hrærið öllu saman. Deigið á ekki að vera of þurrt, en heldur ekki að klístrast við fingurna. Bætið við smá mjöli ef of blautt eða smá vökva ef of þurrt. Sniðugt er að strá spelti á brettið þegar þið fletjið brauðin út með kökukefli, svo deigið klístrist ekki við.

Hitið pönnu og þurrsteikið brauðin í u.þ.b. 1 mínútu á hvorri hlið. Tímalengdin fer svolítið eftir hitastiginu á pönnunni, en þegar þið sjáið loftbólur myndast í brauðinu er tími til kominn að snúa því við. Hafið tilbúinn disk með viskastykki á, svo hægt sé að vefja brauðin inn í viskastykkið. Hellið smá hvítlauksolíu og stráið örlitlu sjávarsalti yfir hvert brauð um leið og það er tekið af pönnunni. Vefjið inn í viskastykki og látið hvert brauð ofan á annað þegar það er tekið af pönnunni.

Njótið í rólegheitum og í góðum félagsskap.
Dal er saðsöm máltíð sem lætur lítið yfir sér, en við lofum að allir verða pakksaddir.

comments powered by Disqus