17/9

Gulrótarkaka

Færsla skrifuð 17. september 2014

Ég á margar góðar æskuminningar úr garði foreldra minna. Einn fallegan síðsumardag vorum við að bardúsa í beðunum og ég var orðin sársvöng. Mamma benti mér á að taka upp nokkrar gulrætur úr beðinu, hlaupa niður að vatni og skola þær. Ég man ennþá sætan ilminn af nýþvegnum gulrótunum og að á þessari stundu langaði mig eingöngu til að borða grænmeti úr garðinum, því það var best í heimi. Fyrir stuttu síðan upplifði ég svipað augnarblik með ömmustráknum mínum þegar ég fylgdist með honum taka upp gulrætur úr sínu eigin litla beði í garðinum heima hjá sér, skola þær (með vatnsbyssu!) og úða þeim svo í sig með sælusvip.  Sólveig

Í garðinum hjá Afa Eiríki og Ömmu Hildi fá yngstu hjálparhendurnar úthlutað mikilvægu hlutverki gulrótarskrúbbarans. Gulrótarskrúbbarinn fær fullan bala af moldugum gulrótum og skrúbbar þær með uppþvottabursta uppúr ísköldu rigningarvatni sem Afi safnar í stórar tunnur. Við mæðgurnar minnumst þess báðar að hafa tekið þetta hlutverk mjög alvarlega á sínum tíma. Ilmurinn af nýskrúbbuðum gulrótum er einstakur og minnir okkur á sæla síðsumar daga. Við erum sannfærðar um það að börn sem fá að gæða sér á nýju og fersku grænmeti verði líklegri til að kunna vel að meta grænmeti í ýmsu formi út ævina. Sérstaklega er hvetjandi að fá að taka þátt í ræktun og uppskeru eða innkaupum og matreiðslu grænmetis.

Nýjar gulrætur eru dísætar eins og sælgæti, bestar beint upp í munn. En þegar uppskeran er mikil þarf að ákveða hvernig best er að nýta hana. Amma Hildur sýrir stóran hluta af uppskerunni, sýrðar gulrætur eru algert lostæti með öllum mat og það er notalegt að eiga síðsumarminningar í krukkum fram eftir vetri. Gulrætur geymast ágætlega á dimmum og köldum stað og eru mikil dásemd létt gufusoðnar með smá skvettu af ólífuolíu og sjávarsalti. Glænýjar og sætar gulrætur passa vel í eftirrétti. Þegar líður á veturinn og gulræturnar eru ekki alveg jafn ferskar er sniðugt að nota þær í súpur og pottrétti. Um þessar mundir fást flottar lífrænar íslenskar gulrætur í búðunum, við hvetjum alla sem náðu ekki að rækta sínar eigin til að næla sér í nokkrar, finna ilminn af þeim og borða þær svo beint upp úr pokanum. 

Við mæðgurnar tókum upp gulrætur um daginn og skelltum í ljúffenga gulrótarköku, með appelsínu "osta" kremi. 

Gulrótarkökur eru afar gómsætar. Til eru góðar klassískar uppskriftir sem auðvelt er að breyta og nota þá lífrænt heilhveiti eða gróft spelt í staðinn fyrir hvítt hveiti. Svo er yfirleitt óhætt að minnka aðeins sykurinn í gömlum uppskriftum án þess að nokkrum verði meint af.
Við mæðgurnar ákváðum að sleppa hveiti og spelti í þetta sinn, en nota hráefni sem við erum mjög hrifnar af í desertagerð, eins og möndlur, chia fræ, döðlur, mórber og fleira góðgæti. 

Kakan okkar inniheldur ýmsa hollustu, en hún er líka soldið sæt og með eindæmum ljúffeng. Hún er saðsöm og ein sneið er eiginlega passlegur skammtur. Hrikalega góð með kaffinu eða bolla af ilmandi jurtatei.

Sniðugt er að útbúa kökuna daginn fyrir kaffiboð og eiga hana tilbúna í kælinum. Uppskriftin

Kökubotn

5 dl rifnar gulrætur

1 ¼ dl möndlur eða möndlumjöl 

1 ¼ dl kókosmjöl eða kókoshveiti 

2 ½ dl döðlur, smátt saxaðar 

1 dl mórber 

1 msk möluð chiafræ (notið kryddkvörn eða kaffikvörn)

1 tsk kanill + ½ tsk möluð kardemomma + ½ tsk vanilluduft + 1/8 tsk sjávarsalt

Appelsínu ostakrem

2 ½ dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í a.m.k. 2 klst

½ appelsína, afhýdd og steinhreinsuð 

hýðið af 1 appelsínu (helst lífrænni)

3 msk hlynsíróp eða sykur/sæta að eigin vali 

¾ dl kókosolía

1 msk sítrónusafi 

1 tsk appelsínudropar 

nokkur sjávarsaltkorn

Aðferð 

  1. Leggið kasjúhneturnar í bleyti í 2 klst ef tíminn leyfir, annars bara á meðan botninn er útbúinn.
  2. Setjið möndlur, kókosmjöl, döðlur, mórber, chia fræ, krydd og salt í matvinnsluvél og blandið vel saman og setjið í skál.
  3. Kreistið safann mjög vel úr rifnu gulrótunum (mikilvægt) og bætið þeim útí skálina og hnoðið deigið vel saman.
  4. Pressið kökuna niður í form sem er u.þ.b. 23 cm í þvermál.
  5. Setjið kökuna í frysti í um 15 mín eða á meðan þið búið til kremið.
  6. Setjið allt hráefnið fyrir kremið í blandara og blandið þar til kremið er silkimjúkt.
  7. Smyrjið kreminu á kökuna.
  8. Leyfið kreminu að stífna inni í kæli eða frysti í klst áður en kakan er borin fram.
  9. Kökuna má geyma í frysti.


Gestaljósmyndari er Matthías Árni Ingimarsson vinur okkar og ljósmyndasnillingur. Hann tók fallegu myndirnar af gulrótarkökunni.

comments powered by Disqus