27/9

Hálfmánar

Færsla skrifuð 27. september 2016

Nú er haustið mætt í allri sinni dýrð. Mikið er haustbirtan falleg þessa dagana!  

Á þessum árstíma fáum við oft aukna þörf fyrir að skipuleggja og koma hversdagslegum venjum í gott horf. Við mæðgur erum nestiskonur og höfum gaman af að finna sniðugar hugmyndir fyrir nestisboxin. Um daginn bökuðum við ljúffenga hálfmána til að hafa með í nesti og höfðum með þeim kóríander chutney. Hálfmánar eru mjög handhægir í hádeginu, en þeir eru líka sniðug leið til að breyta afgöngum í nýja máltíð og auðvitað eru þeir alveg jafn góðir heima eins og á ferðinni. 

Við útbjuggum fyllingu úr sætum kartöflum, pekanhnetum og jurtaosti. (En afgangs pottréttur er líka frábær fylling). Svo er alveg nauðsynlegt að hafa gott chutney eða sósu til að dýfa í. Við erum sjúkar í kóríander svo við höfðum að sjálfsögðu kóríander chutney með. 

Framkvæmdin er auðveld. Þegar fyllingin og chutneyið er tilbúið þarf bara að hræra í einfalt speltdeig, skipta deiginu í ca 10- 12 kúlur og svo:


Fletja út eina kúlu í einu

 

Skera út hring

Setja fyllinguna í 

Og loka með fingraförum

Og þá eru þeir tilbúnir í ofninn.

Uppskriftin

Sætkartöflufylling

250g bakaðar sætar kartöflur í teningum (bakið ca. 350g í ofni)
100g vegan “rjómaostur”
60g þurristaðar pekanhnetur, gróft saxaðar
1 dl kóríander chutney (sjá uppskrift)
1 tsk cayenne pipar
sjávarsaltflögur

Setjið allt í skál og “klípið” eða hrærið saman.

Kóríander chutney

1 búnt ferskur kóríander (ca 25g)
3-4 mintublöð
1-2 msk engiferskot, eða 2-4 cm ferskur engifer, rifinn
1 grænn chilli, saxaður
2 msk sítrónusafi
2 msk rauðlaukur, afhýddur og gróft saxaður
100g ristaðar kókosflögur
2 hvítlauksrif
1 tsk cuminduft
200 ml jómfrúarólífuolía (eða bragðminni olía ef vill)

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. 

Hálfmánadeig

440g spelt (við notum fínt og gróft til helminga)
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk sjávarsaltflögur
1 tsk hvítlauksduft
3 msk jómfrúarólífuolía
325-350 ml heitt vatn

  1. Setjið þurrefnin í skál og blandið saman, bætið olíu og vatni út í og hnoðið.
  2. Stráið smá spelti á borðið og fletjið deigið út.
  3. Notið eitthvað hringlaga, t.d. undirskál eða lítinn kökudisk til að skera út hringina. Það fer eftir stærðinni á hringnum hvað þið fáið marga hálfmána. Við notuðum disk sem var 12 cm í þvermál og fengum 12 hálfmána úr þessu deigi.
  4. Setjið 2 msk af fyllingu á annan helminginn af hringnum, skiljið eftir 1 cm að kantinum svo hægt sé að loka. Lokið hálfmánanum og notið annað hvort fingurna eða gaffal til að þrýsta deiginu saman.
  5. Bakið við 200°C í 12-14 mín eða þar til hálfmánarnir hafa fengið gylltan lit. Gott að vefja þeim inn í viskastykki til að halda rakanum í deiginu. 

comments powered by Disqus