12/12

Hátíðarréttur Grænkeranna

Færsla skrifuð 12. desember 2014

Hefðirnar í kringum jólamatinn eru fastmótaðar hjá mörgum og sömu kræsingar á borðum ár hvert. Við mæðgurnar höfum verið grænmetisætur nánast jafn lengi og við höfum verið mæðgur, okkar jólahefðir eru því aðeins öðruvísi en margir eiga að venjast. 

Hnetusteik er algengur hátíðarréttur þeirra sem ekki borða kjöt, enda passar hnetusteikin einstaklega vel með hefðbundnu hátíðarmeðlæti. Svo eru reyndar margar alætur farnar að fá sér hnetusteik í staðinn fyrir kjöt allavega einu sinni yfir hátíðarnar. Mörgum finnst hreinlega of þungt í maga að borða reykt kjöt og stórsteikur í hvert mál. Þá er tilvalið að fá sér hátíðlega rétti úr grænmeti, baunum og hnetum inn á milli.  

Við höfum prófað ýmsa grænmetisrétti á aðfangadagskvöld og finnst gaman að breyta til annað slagið. Í vikunni héldum við jólafund og ákváðum hvað yrði borið á borð þessi jólin. Sú eldri töfraði fram hnetuturn með rótarmús, sem heppnaðist alveg svakalega vel. Og þá var það ákveðið. Jólamaturinn í ár verður:

Hnetuturn með rótarmús og krydduðum pekanhnetum,
eplasalat, rósakál með möndlum og granatepla salsa.

Uppskriftin

Passlegt fyrir ca. 4-6 veislugesti

Hnetuturn

2 msk góð olía
1 laukur, smátt saxaður
3 hvítlauksrif, smátt söxuð
2 sellerístilkar, smátt skornir
1 rauð paprika, skorin í bita
100g spínat, saxað
200g soðnar rauðar linsur
450g blandaðar hnetur, þurristaðar á pönnu eða í ofni og gróft saxaðar (t.d. 150g af: heslihnetum, kasjúhnetum og pekanhnetum)
200g hnetusmjör
100g möndlumjöl
100g rifinn daiya ostur
1 ½ tsk timian þurrkað eða 1 ½ msk ferskt
½ tsk salvía þurrkuð eða ½ msk fersk
¼ tsk múskat
1 tsk sjávarsalt
1 tsk grænmetiskraftur
½ tsk chili flögur

Byrjið á að sjóða linsur í potti. Hitið olíuna á pönnu og mýkið laukinn og hvítlaukinn þar á í um 5-7 mín. Bætið þá sellerí og papriku útá og haldið áfram að láta þetta malla í aðrar 5-7 mín. Bætið söxuðu spínati útá og hrærið í um 1 mín. Takið af hellunni og látið kólna. Setjið soðnar rauðar linsur í hrærivélaskál ásamt hnetunum, hnetusmjörinu, möndlumjölinu, daiyaostinum og kryddinu og hrærið saman. Bætið laukblöndunnu útí og klárið að hræra saman. Mótið hringlótta “turna” ca 10 cm í þvermál og 3 cm á hæð og bakið við 200°C í um 15 – 20 mín. 

Rótarmús

1 sellerírót, afhýdd og skorin í 2x2 cm bita
1 sæt kartafla, afhýdd og skorin í 2x2 cm bita
3 gulrætur, skornar i 2x2 cm bita
½ dl vatn
½ tsk paprikuduft + 1 tsk töfrakrydd (frá Pottagöldrum) + smá salt

Blandið öllu saman í ofnskúffu og bakið í ofni við 200°C í 12-15 mín. Maukað í skál og smá kókosolía eða ólífuolía sett útí til að gera músina mýkri. 

Kryddaðar pekanhnetur

100g pekanhnetur
2 msk hlynsíróp
½ tsk kanill
½ tsk chiliflögur eða ¼ tsk cayenne pipar

Setjið hlynsíróp á pönnu ásamt kryddinu og hrærið í. Bætið hnetunum útá og látið veltast á pönnunni í um 2-3 mín – hrærið stöðugt því annars brennur þessi dásemd. 

Setjið 2 cm lag af rótarmús oná hnetuturninn og skreytið með krydduðum pekanhnetum. 

Eplasalat

2 lífræn epli, kjarnhreinsuð
3 sellerístönglar, skornir í litla þunna bita
3 grænkálsblöð, rifin í bita og steikt á pönnu
10 lífrænar þurrkaðar aprikósur, smátt saxaðar
2 msk granateplakjarnar
10 pekanhnetur

Skerið grænmetið í bita og setjið í skál, hellið dressingunni yfir, blandið öllu vel saman. Endið á að strá granateplakjörnum yfir salatið.

Dressingin:

3 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst
2 dl vatn
2 – 3 msk ólífuolía eða önnur góð olía
2 msk sítrónusafi
1 msk sinnep
1 lítið hvítlauksrif
1 tsk laukduft
1 tsk salt
2 – 3 döðlur

Allt sett í blandara og blandað vel saman, kannski þarf að bæta smá meira vatni út í ef blandarinn á í erfiðleikum.

Rósakál með möndluflögum

200g rósakál, skorið i tvennt
2 msk kókosolía
1 tsk salt
1 tsk paprikuduft
¼ tsk chili flögur
nýmalaður svartur pipar

ofaná:
50g möndluflögur, þurrristaðar á pönnu

Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og nuddið rósakálið með kókosolíunni og kryddinu og bakið við 200°C í 10 mín. Setjið í skál með möndluflögum og berið fram.

Granateplasalsa

Kjarnarnir úr 1 granatepli
10 kirsuberjatómatar, skornir í tvennt og aftur í tvennt
2 msk smátt saxaður rauðlaukur
safinn og hýðið af 1 sítrónu
smá nýmalaður svartur pipar og smá sjávarsalt
Allt sett í skál og blandað saman.

Njótið vel kæru vinir og eigið góðar stundir.

comments powered by Disqus