19/12

Heimagerðar jólagjafir

Færsla skrifuð 19. desember 2015

Okkur mæðgum finnst gaman að gefa heimagert góðgæti á jólunum. Og við kunnum sjálfar mjög vel að meta að fá jólagjöf sem hægt er að maula yfir jólabókunum. 

Svo er líka skemmtileg hugmynd að gefa uppskrift og hráefni í bakstur eða matargerð. Þá eru þurrefnin í uppskriftinni sett í fallega krukku og leiðbeiningar fylgja með. Þetta getur verið uppskrift að uppáhalds smákökunum, brauðuppskrift, spennandi baunaréttur osfrv. Best er að velja uppskrift þar sem ekki þarf að bæta miklu við út í þurrefnablönduna. 

Svo er um að gera að hafa umbúðirnar fallegar, okkur finnst t.d. gaman að endurnýta krukkur undan matvöru.
Hér eru hugmyndir sem ekki tekur langan tíma að útbúa.
***Ristaðar möndlur

Ristaðar möndlur eru í uppáhaldi hjá okkur. Þær eru frábært hátíðarnasl einar og sér, en líka æðislegar út á salöt og með mat. Tilvalið að lauma með í jólapakkann. 


Ristaðar möndlur

4 dl möndlur
¼ dl hlynsíróp 
1 tsk cayenne pipar
1 tsk kanill
½ tsk sjávarsalt

Hrærið saman hlynsírópi og kryddi. Veltið möndlunum upp úr þessu og setjið á ofnplötu og bakið við 200°C í 4-6 mín. Leyfið möndlunum að kólna áður en þær fara ofan í krukku.***Fræbrauð

Þessi uppskrift er úr bókinni okkar og er í miklu uppáhaldi. Þetta er ekki alveg hefðbundið brauð, uppistaðan eru fræ, möndlur og hafrar og það er mjög saðsamt, okkur finnst það fara ofsalega vel í maga. 
Í krukkuna setjum við þurrefnin (allt nema vatn, ólífuolíu og hlynsíróp). Svo látum við leiðbeiningar fylgja með á fallegu blaði, þar sem t.d. er hægt að segja:

  1. Helltu úr krukkunni í stóra skál.
  2. Bættu ½ dl ólífuolíu, 7 ½ dl vatni og 2 msk hlynsírópi út í og blandaðu vel. 
  3. Láttu deigið standa í um 30 mín við stofuhita.
  4. Bakaðu við 180°C í 30 mín, taktu svo brauðið úr forminu og kláraðu að baka það í 30-35 mín.
  5. Mjög mikilvægt er að kæla brauðið alveg áður en það er skorið - t.d. gott að setja í kæli fyrst.
  6. Geymist í 5-7 daga í kæli.
  7. Mjög sniðugt er að frysta brauðið niðurskorið, þá er svo lítið mál að skella því í brauðristina.


Fræbrauð

5 ½ dl haframjöl
9 dl blönduð fræ
3 ¼ dl möndlur
1 ¼ dl psyllium husk
1 dl möluð chiafræ
1-2 tsk salt
½ dl ólífuolía
7 ½ dl vatn
2 msk hlynsíróp eða hunang

Í þetta brauð finnst okkur best að nota blöndu af sólblómafræjum, hampfræjum, graskerjafræjum og hörfræjum. Það gera um 2 ¼ dl af hverri tegund. Saxið möndlurnar gróft. Setjið þurrefnin saman í skál og blandið saman. Bætið restinni af uppskriftinni útí og blandið vel saman, látið standa í um 30 mín við stofuhita. Bakið við 180°C í 30 mín, takið brauðið úr forminu og klárið að baka það í 30-35 mín. Mjög mikilvægt er að kæla brauðið alveg áður en þið skerið það - við setjum það oftast í kæli áður en við skerum. Geymist í 5-7 daga í kæli. Mjög sniðugt að frysta brauðið niðurskorið, þá er svo lítið mál að skella því í brauðristina.***Kryddblöndur

Við höfum gaman af því að búa til allskyns kryddblöndur. Mörgum finnst gott að eiga tilbúnar kryddblöndur í skúffunni, sem gefa matnum ákveðinn karakter. T.d. með innblæstri frá mexíkóskri matargerð, indverskri, ítalskri, marokkóskri... osfrv. Þá er svo auðvelt að töfra fram ljúffengan rétt án þess að þurfa að hugsa mjög mikið. Hér erum við með mexíkóska blöndu. Í bókinni okkar eru síðan fleiri góðar blöndur.

Mexíkósk kryddblanda

2 msk paprikuduft
1 ½ msk malað cumin
1 msk chili duft
1 msk hvítlauksduft
1 msk laukduft
1 ½ tsk chili flögur
1 ½ tsk oregano
1 ½ tsk sjávarsaltflögur
1 ½ tsk nýmalaður svartur pipar
½ tsk reykt paprikuduft
½ tsk kanilduft
¼ tsk malaður negull

Ef þið viljið gera þessa blöndu sérlega bragðgóða þá þurrristið þið cuminfræ á pönnu og malið í kryddkvörn, og notið í staðinn fyrir malað cumin. Öllu blandað saman og sett í krukku.

Gleðilega hátíð kæru vinir!
Solla & Hildur

comments powered by Disqus