16/12

Hnetusmjörs konfektmolar

Færsla skrifuð 16. desember 2016

Okkur mæðgum finnst gaman að gefa jólagjafir sem hægt er að borða. Stundum gerum við auka skammt af konfekti til að lauma í nokkra jólapakka. Á hverju ári pössum við að útbúa nóg af uppáhalds konfektinu okkar, marzípan molunum góðu, og í ár ætlum við að bæta við hnetusmjörs-karamellumolum til að fá fjölbreytni í konfektkassann.

Hnetusmjörsfyllingin er ofureinföld. Hana má móta í kúlur og hjúpa í súkkulaði á sama hátt og við gerðum við marzípan molana, en það má líka nota konfektmót og sprauta fyllingunni í. Aðal munurinn á aðferðunum liggur í útlitinu, en áferðin verður líka aðeins ólík. Til að fá leiðbeiningar fyrir kúlur, skoðið marzípan-bloggið. Hér eru leiðbeiningar fyrir konfektgerð með konfektformum:

Hellið ríflega af bræddu súkkulaði í konfektform, fyllið næstum því

snúið frekar snöggt við alveg á hvolf og látið súkkulaðið leka úr forminu á bökunarpappír

Með þessu erum við að hylja formin að innanverðu með þunnu lagi af súkkulaði. Setjið formin með súkkulaðinu í frysti og látið harðna. (Við setjum súkkulaðið sem lak á bökunarpappírinn aftur í skálina með brædda súkkulaðinu til að nota á eftir).

Þegar súkkulaðið er orðið hart, sprautið karamellunni í formin, fyllið ekki alveg því við þurfum að setja súkkulaði til að loka konfektinu. Setjið inn í frysti í 5-10 mín. 

Setjið súkkulaði yfir fyllinguna, skafið með spaða eða öðru áhaldi svo þetta verði jafnt. Látið stífna inn í frysti þar til orðið hart og auðvelt að taka úr forminu.

Fylltir konfektmolar

Súkkulaðið

200g 71% súkkulaði, lífrænt & fairtrade

  1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði – okkur finnst best að hafa hitann ekki of háan svo súkkulaðið hitni ekki of mikið, heldur bara rétt bráðni, þá fær konfektið fallegan gljáa.

 

Karamellufylling

100g döðlur
1 dl hreint hnetusmjör, fínt
2 msk kókosolía (fljótandi)
hýðið af 1 lífrænni appelsínu

  1. Saxið döðlurnar smátt setjið í matvinnsluvél með hnetusmjörinu, kókosolíunni og appelsínuhýðinu.
  2. Setjið fyllinguna í sprautupoka. 

Aðferð

  1. Hellið ríflega af bræddu súkkulaði í konfekt form, fyllið næstum því, snúið frekar snöggt við og látið súkkulaðið leka úr forminu á bökunarpappír. Með þessu erum við að gera þunnt lag af súkkulaði í formin. Setjið formið með súkkulaðinu í frysti og látið harðna.
  2. Þegar súkkulaðið er orðið hart, sprautið karamellunni í formin, fyllið ekki alveg því við þurfum að setja súkkulaði til að loka konfektinu. Setjið inn í frysti í 5-10 mín.
  3. Setjið súkkulaði yfir karamellunna, skafið með spaða eða öðru áhaldi svo þetta verði jafnt. Látið stífna inn í frysti þar til orðið hart og auðvelt að taka úr forminu.
  4. Geymist best í kæli/frysti

comments powered by Disqus