31/10

Kelpnúðlur í hnetusósu

Færsla skrifuð 31. október 2016

Nú þegar dagarnir styttast og birtan minnkar smámsaman finnst okkur mæðgum gott að fá svolítið mótvægi og birgjum okkur upp af björtum litum úr grænmetisdeildinni.

Um daginn fundum við kelpnúðlur í búðinni. Kelpnúðlur fást ekki alltaf og við ákváðum því að nýta tækifærið og útbúa djúsí núðluskál með hnetusmjörssósu og litríku grænmeti, avókadó og fullt af kóríander. Kelpnúðlur eru gerðar úr sjávarþara, hafa hlutlaust bragð og mjög skemmtilega áferð. Okkur finnst gott að nota kelpnúðlur á svipaðan hátt og hrísgrjónanúðlur, nema kelpnúðlurnar þarf ekki að sjóða, bara leggja aðeins í bleyti. Núðlurnar eru orkusnauðar (5 kkal í 100g), við höfum því góða samvisku þegar við hellum ríkulega af hnetusósu yfir.

Þetta grænmeti var til í ísskápnum þann daginn: rauðlaukur, vorlaukur, gulrætur, röndótt rauðrófa, mini-maís og sykurbaunir. Að sjálfsögðu er hægt að nota nánast hvaða grænmeti sem er í núðluskálina.

Ef þið vitið ekki hvernig kelpnúðlur líta út þá er hér mynd af pakkanum sem við notuðum. (Þetta er eina tegundin sem við vitum til að fáist hér á landi, en kannski finnið þið fleiri tegundir..). Núðlurnar finnum við oftast í hillunum hjá lífrænum vörum.

Uppskriftin

fyrir u.þ.b. 4

Núðlurnar

Látið kelpnúðlurnar liggja í bleyti á meðan þið útbúið sósuna og snöggsteikið grænmetið. Skolið svo núðlurnar, veltið þeim uppúr sósunni og setjið grænmeti, avókadó og kóríander út á. 

Sósan

2 dl hnetusmjör, hreint
1-2 dl kókosmjólk eða möndlumjólk
2 dl vatn
3 msk sítrónusafi
1 msk engiferskot (engifersafi)
1 msk tamarisósa
1/2 tsk ristuð sesamolía
1 hvítlauksrif
2 döðlur
10g ferskur kóríander

Setjið allt í kröftugan blandara og blandið þar til silkimjúkt. Ef blandan er of þykk má þynna með smávegis vatni eða kókosmjólk. Ef of þunn má þykkja með hnetusmjöri.

Grænmetið

150g blandað grænmeti, niðurskorið. (t.d. vorlaukur, gulrætur, sykurbaunir, spergilkál...)
1 msk sesamolía
smá sjávarsalt
1 avókadó, skorið í bita
fullt af ferskum kóríander

Snöggsteikið allt (nema avókadó og kóríander ) upp úr sesamolíu og salti á pönnu í örfáar mínútur
Setjið snöggsteikt grænmeti, avókadó og kóríander út á núðlurnar

comments powered by Disqus