26/2

Kínóaskál með kryddjurta dressingu

Færsla skrifuð 26. febrúar 2015

Það er svo notarlegt að borða góðan mat upp úr fallegri skál. Sérstaklega þegar máltíðin er heilsteypt: góð næring fyrir líkama, bragðlauka og sál. Þegar við borðum svona nærandi mat í rólegheitum finnum við hvað við erum sátt eftir matinn, þurfum ekkert meira og sætindi freista síður. Kínóaskálin er akkúrat þess konar máltíð. 

Þegar við mæðgurnar erum að bralla eitthvað saman tökum við okkur alltaf tíma í að borða eitthvað gott. Oftast er það hádegismaturinn og þar sem við erum báðar miklar salat konur verður matarmikið salat oftar en ekki fyrir valinu. Kínóaskálin er dæmigerður fljótlegur hádegismatur sem við skellum í þegar okkur langar í eitthvað nærandi og mettandi, en ekki of þungt í maga. Í þennan rétt er tilvalið að nota þá afganga sem leynast í ísskápnum hverju sinni, t.d. ofnbakað grænmeti eða soðnar baunir. Rétturinn er aldrei eins, við notum það sem til er hverju sinni.

Okkur finnst mikilvægt að hafa jafnvægi í skálinni. Jafnvel er gott að hafa þrískipta diskinn í Ráðleggingunum frá Landlæknisembættinu í huga þegar máltíð er sett saman, þ.e.a.s. að muna eftir góðum próteingjafa, gæða kolvetni (grófmeti) og grænmeti/ávöxtum. Okkar uppáhalds próteingjafar í þetta salat eru baunir og hnetur, svo eru reyndar góð prótein í kínóa líka. Við fáum gæða kolvetni úr sætu kartöflunum, baununum og kínóanu og svo er nóg af girnilegu grænmeti. 

Svo þarf eitthvað fyrir sálina og bragðlaukana: Granateplakjarnar og sólþurrkaðir tómatar lífga heldur betur upp á og víkka bragð-litrófið. (Við notuðum uppáhalds sólþurrkuðu tómatana okkar, þeir eru svona "semisecchi" eða hálfþurrkaðir ítalskir kirsuberjatómatar í lífrænni jómfrúarólífuolíu, þvílíkt lostæti). Lykilatriði er síðan dressingin, hún setur punktinn yfir i-ið og gerir bragðlaukana hoppandi káta. Við erum kóríander sjúkar, þess vegna settum við fullt fullt af ferskum kóríander í sósuna, ef þið eruð hrifnari af öðru kryddi er hægt að gera sósuna með ferskri basilíku eða ykkar uppáhalds kryddjurtum. 

Uppskriftin

Kínóaskál með kóríandersósu
4 dl soðið kínóa
2 dl bakaðar sætar kartöflur
2 dl grænkál, smátt saxað - eða lífrænt spínat
1 dl soðnar kjúklingabaunir (til dæmis úr krukku)
1 dl klettasalat
1 dl granateplakjarnar (má sleppa)
1 avókadó, skorið í bita
1 rauð paprika, skorin í bita
nokkrir sólþurrkaðir tómatar (semisecchi í jómfrúarólífuolíu eru bestir!!)
nokkar kasjúhnetur, þurristaðar á pönnu eða bakaðar í ofni

Kóríander dressing
1 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 15 mín (má vera lengur)
½ búnt ferskur kóríander (hægt að nota basil)
½ dl appelsínusafi
2 msk sítrónusafi
1 hvítlauksrif
1 daðla (má sleppa)
½ tsk sjávarsaltflögur
-allt sett í blandara og blandað saman.

Aðferð

  1. Ef þið eigið tilbúið soðið kínóa og bakaðar sætar kartöflur eða annað grænmeti notið þið það. Annars tekur ekki langan tíma að útbúa þetta, u.þ.b. 20 mínútur.
  2. Sætar kartöflur bakaðar = afhýðið kartöflurnar og skerið í teninga, setjið bökunarpappír á ofnplötu, látið sætu kartöflurnar þar á, kryddið með salti og pipar, klípið smá kókosolíu yfir kartöflurnar og setjið 1-2 msk af vatni og bakið við 170°C í 20 – 25 mín.
  3. Kínóa soðið = 2 dl kínóa, skolað og sett í pott ásamnt 4 dl af vatni, suðan látin koma upp og látið sjóða í um 15-20 mínútúr. Slökkvið undir pottinum og látið standa í 5 mín.
  4. Á meðan þið bíðið eftir kínóanu og sætu kartöflunum undirbúið þið restina af hráefninu og útbúið sósuna. Það er þægilegt að kaupa kjúklingabaunir í krukku en ef þið hafið tíma er hagkvæmast að sjóða þær sjálfur.
  5. Setjið kínóað í botninn á skálinn og raðið síðan hráefninu í skálina og endið á að fá ykkur vænan skammt af dressingunni út á. 
  6. Njótið í rólegheitum í góðum félagsskap.

Að lokum er hér gott ráð frá sérfræðingunum hjá Landlæknisembættinu:

Gefum okkur tíma til að njóta matarins og borðum með athygli - að borða með athygli felur í sér að beina athyglinni meðvitað að því að borða og taka betur eftir merkjum líkamans um svengd og seddu.

comments powered by Disqus