12/6

Kryddað fíflarótar kaffi

Færsla skrifuð 12. júní 2015

Við mæðgur ristuðum nýtíndar fíflarætur úr garðinum um daginn, helltum uppá "kaffi" og útbjuggum svo fíflarótar-latte kryddað með vanillu og möndlum. Hér áður þegar kaffi var dýr munaðarvara var mjög algengt að drýgja það með kaffibæti, sem oft var gerður úr fíflarót eða chickory rót. Þetta tíðkaðist bæði hérlendis og víðar, og reyndar er kaffi með slíkum kaffibæti vinsælt í New Orleans enn þann dag í dag og þykir sælkera drykkur.


Fagurgulir fíflar vekja upp blendnar tilfinningar. Þeir eru einstaklega glaðleg sumarblóm og lífga mikið upp á umhverfið snemmsumars. En túnfífillinn á ekki í vandræðum með að dreifa sér og er því oft flokkaður sem illgresi. Hluti af vorverkum margra garðeigenda er að hreinsa grasflötina og blómabeðin af fíflum. Þannig var það líka í okkar fjölskyldu og hlutverkið féll yfirleitt í skaut yngstu kynslóðarinnar, sem uppskar hrós í samræmi við stærð rótarinnar sem náðist hverju sinni, því ekki var nóg að tína blómin. 

Okkur þótti því svolítið skondið þegar bresk vinkona kom í heimsókn og hrópaði upp yfir sig af aðdáun yfir öllum fíflunum í túninu. Hún sagðist þekkja fólk sem hefði pantað fíflafræ í gegnum internetið til að rækta túnfífla!
Í þeim tilgangi að nýta rætur og blöð í te og seiði. 

Túnfífillinn á sér einmitt langa sögu sem lækningajurt, bæði í evrópskum alþýðulækningum, kínverskum lækningum og meðal frumbyggja Ameríku. Í bókinni Íslenskar Lækningajurtir kemur fram að jurtin hafi verið talin hafa þvagdrífandi áhrif, notuð til að styrkja lifur og meltingafæri, og örva hægðir og gallmyndun. Við mæðgur erum engir sérfræðingar í virkni túnfífilsins, en hér má sjá umfjöllun lektors í HÍ um jurtina og svo er margt hægt að lesa á internetinu um túnfífilinn (dandelion). Garðvinna er svo góð leið til að tengja sig náttúrunni, og það er dásamleg tilfinning að geta nýtt eitthvað af því sem náttúran gefur af sér til matar. Núna í júní byrjun vorum við mæðgurnar að vinna saman í garðinum og hreinsuðum meðal annars túnið af fíflum. Við ákváðum að slá tvær flugur í einu höggi og nýta uppskeruna. Oft eru ung og falleg fíflablöð nýtt í salöt, þau eru svolítið römm, en gefa mikinn karakter. Okkur fannst mjög spennandi að nýta ræturnar líka, það er ótrúlega gaman að sjá hversu stórar og langar þær geta orðið. Það hjálpaði mikið að hafa litla en langa og oddhvassa skóflu til að stinga meðfram rótinni, því plantan slitnar svo auðveldlega frá og rótin verður þá eftir djúpt ofan í moldinni. Og það voru engar smá rætur sem við uppskárum! 

Frekar en að skrúbba hverja einustu kræklótta rót vandlega í krók og kima fannst okkur fljótlegra að skola ræturnar nokkrum sinnum með nýju vatni og nudda þær aðeins. (Mjög gott að hafa hanska).

Þegar ræturnar voru orðnar þokkalega hreinar skárum við þær niður í litla bita og skoluðum einu sinni enn í sigti. Svo settum við þær í matvinnsluvél og möluðum gróft.

Malaðar ræturnar fóru inn í ofn í ofnskúffu. Við höfðum rifu á ofnhurðinni, settum trésleif á milli til að hleypa rakanum út svo þurrkunin gengi hraðar fyrir sig. Ræturnar voru inni í u.þ.b. 2 klst við 120°C. Í lokin kom örlítið dekkri litur á létt ristaðar ræturnar.

Við ákváðum að geyma ristaðar ræturnar grófmalaðar í krukku og mölum síðan fínt í kaffikvörn fyrir hverja uppáhellingu, eins og þegar heilar kaffibaunir eru notaðar.

Svo helltum við uppá á gamla mátann. 

Kryddað fíflarótarkaffi

2 msk fínt möluð fíflarót
3 dl soðið vatn 
- hellt uppá á gamla mátann. Uppáhellingin sett í blandara með kryddi og möndlusmjöri:

1/4 tsk vanilluduft
1/4 tsk kanill (ceylon)
1/4 tsk kardimommuduft
1/8 tsk svartur pipar
1/8 tsk sjávarsalt
1 msk möndlusmjör
1 daðla eða 1-2 tsk hlynsýróp til að sæta, ef vill
- blandað þar til silkimjúkt og kekklaust

 

Hér má finna fleiri hugmyndir fyrir þá sem langar að nýta fíflana í túninu heima. 

comments powered by Disqus