17/2

Kryddaður tedrykkur

Færsla skrifuð 17. febrúar 2016

Á köldum vetrardegi er notarlegt að brugga sér heitan kryddaðan drykk. Í bókinni okkar, Himneskt að njóta má finna uppáhalds kryddaða kaffidrykkinn okkar, vermandi í morgunsárið. Undanfarið höfum við verið að brugga heita drykki úr krydduðu tei, dásamlegir hvenær sem er dags, þegar okkur vantar smá orku og aðhlynningu.

Í drykkinn notum við gott lífrænt ræktað te, nú er til ótrúlegt úrval af góðu jurtatei í flestum búðum, þið getið notað ykkar uppáhald. Við erum mjög hrifnar af teinu frá Pukka, okkur finnst verslunarhættirnir þeirra fallegir, mikið er lagt upp úr fairtrade og fairwild viðskiptum. Þau leita uppi lítil býli með lífræna ræktun og bændur sem safna villtum jurtum, og eiga í sanngjörnum viðskiptum við þá. Í þennan drykk notuðum við ótrúlega gott lakkrís og kanilte, en ýmsar Chai blöndur væru líka góðar. Teið sem er notað í drykkinn má gjarnan gefa sætt kryddað bragð. Kanill, kardimomma, vanilla og lakkrísrót gefa sætan keim, og því er gott trix að nota þessi krydd til að minnka sykurmagn í uppskriftum. Við notum til dæmis kryddað te í heimagerða múslíið okkar, til þess að komast hjá því að nota of mikla sætu í uppskriftina. Svo er oft talað um að krydd hafi heilsusamlega eiginleika, en við notum þau þó fyrst og fremst bragðsins vegna.

Við bætum hampfræjum og möndlusmjöri eða kasjúhnetum útí til að þykkja drykkinn og gefa dásamlega kremaða áferð. Þetta er svona drykkur sem er gott að drekka þegar maður þarf á vermandi orku að halda og getur komið í staðinn fyrir smá snarl, því hann er saðsamur.

Uppskriftin

Vermandi kryddað te

2 bollar soðið vatn
2 pokar gott kryddað te, t.d. licorice and cinnamon frá Pukka, eða gott Chai
1-2 tsk engiferskot eða 1 biti ferskur engifer
½ tsk turmeric duft
1 væn msk kakóduft
1 msk hampfræ
1-2 msk kasjúhnetur eða 1 msk möndlusmjör
1 tsk hlynsíróp
smá kardimomma (gott að nota svörtu kornin innanúr belgjunum, eða malaða kardimommu)
smá sjávarsaltflögur
örlítill svartu pipar ef vill

Byrjið á að brugga te úr 2 pokum og soðnu vatni. Setjið restina af uppskriftinni í blandara ásamt teinu og blandið. Ath að það þarf að fara varlega þegar er verið að blanda heitan vökva í blandara, getur verið gott að setja ekki allt heita teið útí í einu og passa að lokið sé alveg þétt á.

 

comments powered by Disqus