13/12

Marzípan molar

Færsla skrifuð 13. desember 2016

Það er orðinn fastur liður hjá okkur á aðventunni að eiga notalega konfektgerðarstund með fjölskyldunni. Við erum marzípan grísir og marzípan molarnir gufa upp fyrstir allra, eins og fyrir töfra!

Við höfum gert einfalt heimalagað marzípan svo lengi sem við munum. Marzípanið okkar er svolítið grófara en þetta sem fæst tilbúið, okkur finnst áferðin einmitt svo góð með smá biti í. 

Þetta er konfekt sem allir geta gert, enga sérstaka konfektgerðarofurkrafta þarf í verkið. Matvinnsluvélin fer létt með að græja marzípanið og svo er bara að dýfa dásamlegum marzípankúlum í bráðið súkkulaði og njóta!

Marzípan molar

Marzípan fylling

150g möndlur eða heslihnetur, fínt malaðar í matvinnsluvél
1 ¼  dl hlynsíróp
1 dl kókosolía, fljótandi
½ - 1 tsk möndludropar
1 tsk vanilla
¼ tsk sjávarsalt

  1. Setjið möndlurnar eða heslihneturnar í matvinnsluvél og malið þar til þær verða að mjöli.
  2. Bætið restinni af uppskriftinni út í og blandið vel saman.
  3. Setjið marzípanið í frysti í 15-30 mín svo það stífni því þá er mikið auðveldara að rúlla úr því kúlur.
  4. Búið til kúlur úr marzípaninu. Okkur finnst gott að geyma kúlurnar í frystinum á meðan við bræðum súkkulaðið svo kúlurnar séu vel kaldar þegar við byrjum að hjúpa.

 

Súkkulaðihjúpur

200g 71% súkkulaði, lífrænt & fairtrade

  1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði – okkur finnst best að hafa hitann ekki of háan svo súkkulaðið hitni ekki of mikið, heldur bara rétt bráðni, þá fær konfektið fallegan gljáa.
  2. Notið gaffal til að dýfa kúlunum ofan í súkkulaðið (sjá mynd), leggið svo á bökunarpappír til að stífna. 
  3. Molarnir geymast best í kæli/frysti og eru ljómandi góðir beint úr kælinum. 

 

comments powered by Disqus