9/11

Mexíkósk veisla

Færsla skrifuð 9. nóvember 2015

Matur innblásinn af mexíkóskri matarhefð ratar reglulega á matseðilinn okkar. Börnin eru ánægð með þennan holla og ljúffenga mat, en það besta er hversu fljótlegt og auðvelt er að útbúa máltíðina.

Við erum nefnilega farnar að hallast að því, að það hversu auðveld máltíð er í framkvæmd, skipti miklu máli þegar við erum að taka ákvörðun um hvað eigi að vera í matinn. Við höfum bara ekki alltaf orku eða tíma til að standa í stórræðum í eldhúsinu. Þess vegna finnst okkur mæðgunum gott að eiga nokkrar fljótlegar en hollar uppskriftir uppí erminni. Þá föllum við síður fyrir skyndibita eða fljótlegri óhollustu. Gott ráð er að bæta reglulega við sig einni og einni hollri uppskrift til að æfa og ná góðum tökum á, sem síðan endar jafnvel sem fastagestur á matseðlinum.

Mexíkó veislan hentar mjög vel þegar tíminn er af skornum skammti. Í raun og veru þarf bara að stappa og hita baunir með kryddi, útbúa einfalt guacamole og skera smá ferskt grænmeti niður. Það er nú allt og sumt. Við skellum oftast í heimagerðar túrmerik-tortillur úr grófu spelti í leiðinni (þær eru fljótlegar), en það er líka hægt að kaupa tilbúnar heilhveiti tortillur í búðinni, ef maður er á mikilli hraðferð.

Þó svo að það geti verið sniðugt að spara tíma í eldhúsinu með fljótlegum uppskriftum, þá á það sama ekki við um sjálfan matmálstímann! Við mælum svo sannarlega með því að gefa sér tíma til að njóta matarins, helst í góðum félagsskap. Við trúum því að við skynjum betur skilaboð líkamans um svengd og seddu þegar við einbeitum okkur að því að njóta máltíðarinnar. Það er líka gott að taka eftir því hvernig maturinn fer í okkur, veita því eftirtekt hvernig okkur líður eftir matinn, er þetta matur sem okkur verður vel af?

Þessi máltíð inniheldur baunir, holla fitu (ólífuolía og avókadó), grófmeti, fullt af kryddi og fersku grænmeti. 

Gott ráð: Hægt er að bera chili piparinn fram sér, ef einhver er ekki vanur chili (t.d. börnin). Sum börn eru líka hrifin af að fá hreint stappað avókadó í staðinn fyrir guacamole.

Annað gott ráð: Eitt af okkar uppáhalds trixum fyrir fljótlega matargerð er að útbúa heimagerðar kryddblöndur til að eiga til taks seinna. Ein þeirra er mexíkóska kryddblandan sem við notum í þessa uppskrift. (Það má líka kaupa tilbúna kryddblöndu). Svo er í hallæri hægt að komast upp með að nota bara smá laukduft í staðinn fyrir blönduna.


Uppskriftin er úr nýju matreiðslubókinni okkar Himneskt - að njóta

Uppskriftin

Svartbaunamauk

2 msk jómfrúar ólífuolía
2 pressuð hvítlauksrif
3½ dl soðnar svartar baunir
2 tsk heimagerð mexíkó kryddblanda
½ - 1 tsk sjávarsaltflögur
1 msk sítrónusafi
2-3 msk ferskur kóríander

Hitið olíuna á pönnu og léttmýkið hvítlaukinn þar í. Bætið svörtu baununum út á ásamt kryddblöndunni og látið malla í um 5 mín. Gott að hræra í og mauka baunirnar aðeins með sleifinni. Kryddið með salti og sítrónusafa. Takð af hitanum og hrærið ferskum kóríander út í. 

Salsa

4 plómutómatar, 
1 rauð paprika, 
2 msk ferskur kóríander
1 msk rauðlaukur
1 msk rifið límónuhýði (má sleppa)
1 msk límónusafi eða sítrónusafi
1 msk ferskur chili, fínt saxaður
½ tsk sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Skerið tómatana fyrst í tvennt og kjarnhreinsið og skerið paprikuna í tvennt og steinhreinsið. Skerið svo í litla teninga (½ x ½ cm) og setjið í skál. Afhýðið rauðlaukinn og saxið smátt ásamt ferska chiliinu. Blandið allri uppskriftinni saman í skál.

Guacamole

2 avókadó
1 msk rauðlaukur
1 msk ferskur chili, fínt saxaður
25 g ferskur kóríander
1 msk límónu- eða sítrónusafi
1 hvítlauksrif, pressað
¼ tsk sjávarsaltflögur

Túrmerik tortillur

2 ½ dl spelt, gróft og fínt til helminga
2 tsk túrmerik
1 tsk vínsteinslyftiduft (má sleppa)
2 msk jurtamjólk
2 msk heitt vatn
1 msk sítrónusafi
1 msk jómfrúar ólífuolía

Hrærið öllu saman og hnoðið létt. Deigið á ekki að vera of þurrt, en heldur ekki að klístrarst við fingurna. Bætið við smá mjöli ef það er of blautt eða smá vökva ef of þurrt. Stráið spelti á brettið þegar þið fletjið brauðin út með kökukefli, svo að deigið klístrist ekki við.
Hitið pönnu og þurrsteikið brauðin í u.þ.b. eina mínútu á hvorri hlið. Tímalengdin fer svolítið eftir hitastiginu á pönnunni, en þegar þið sjáið loftbólur myndast í brauðinu er tími til kominn að sná því við. Hafið tilbúinn disk með viskustykki á svo að hægt sé að vefja brauðin inn í viskustykkið, þegar þau koma af pönnunni.

Mexíkósk kryddblanda

2 msk paprikuduft
1½ msk malað kúmín
1 msk chiliduft
1 msk hvítlauksduft
1 msk laukduft
1½ tsk chiliflögur
1½ tsk oregano
1½ tsk sjávarsaltflögur
1½ tsk nýmalaður svartur pipar
½ tsk reykt paprikuduft
½ tsk kanilduft
¼ tsk malaður negull

Öllu blandað saman og sett í krukku með loki, geymist vel.

comments powered by Disqus