17/5

Orkustykki

Færsla skrifuð 17. maí 2016

Með hækkandi sól eykst útiveran jafnt og þétt. Okkur finnst voða gaman að útbúa smávegis nesti til að maula í hverskyns útivist. Fjallgöngur, sundferðir, hjólatúrar, göngutúrar og lautarferðir eru góð tilefni fyrir nesti. Og svo má alltaf taka nesti með í vinnuna eða skólann, nú eða bara maula nestið með kaffibollanum heima við eldhúsborðið. 

Eitt af því sem okkur finnst tilvalið í nestisböggul eru bragðgóð orkustykki. Í bókinni okkar Himneskt að njóta gefum við leiðarvísi að því hvernig hanna má eigið orkustykki eftir sínu höfði. Og í bókinni eru líka tvær góðar uppskriftir, eitt klassískt með súkkulaðibragði og eitt hnetulaust með chiafræjum og höfrum (bls 53). 

Hér að neðan eru svo tvær nýjar uppskriftir. Önnur er frábær fyrir þá sem eru sólgnir í hnetusmjör, hin inniheldur tahini og kakó, sem okkur finnst virkilega ljúffeng blanda. Ef þið eruð ekki mikið fyrir tahini má nota möndlusmjör í staðinn, það gefur mildara bragð. (Við erum sjálfar mjög skotnar í tahini bragðinu, þó það sé ekki allra).

Það er skemmtilegt að leika sér með áferðina á stykkjunum. Til að fá svolítið "krönsj" er snjallt að mauka fyrst grunndeigið í matvinnsluvél, þurrrista á meðan kókosflögur og fræ stuttlega í ofni (bara 5 mínútur) og bæta svo ristuðu fræblöndunni við deigið. Með þeirri aðferð fáum við mjúkt orkustykki með stökkum bitum innan í.

Súkkulaði tahini stykki

3 dl döðlur 
2 dl tahini (eða möndlusmjör)
3 msk kakóduft 
1 msk kókosolía 
½ tsk túrmerik 
½ tsk vanilluduft
sjávarsalt af hnífsoddi
Til að rista:
2 dl kókosflögur 
2 dl fræ að eigin vali (t.d. graskersfræ, sesamfræ, hampfræ...)

Aðferðin

 1. Skerið döðlurnar í litla bita (eða leggið þær í bleyti í 10 mín).
 2. Maukið saman í matvinnsluvél döðlur, tahini, kakóduft, kókosolíu, túrmerik, vanillu og sjávarsalt, þar til orðið að klístruðu deigi.
 3. Á meðan má þurrrista fræin og kókosflögurnar í ofni, í 5 mínútur á 200°C.
 4. Bætið fræblöndunni út í deigið í matvinnsluvélinni og blandið létt.
 5. Þjappið deiginu niður í ferkantað form eða mótið stangir. Ef þið notið form er best að skera stykkin áður en þau fara í frystinn. 
 6. Setjið í frysti og leyfið stykkjunum að stífna. 
 7. Stykkin geymast best í frysti eða kæli. 

Hnetusmjörs og túrmerik stykki

3 dl döðlur 
2 dl hnetusmjör 
½ tsk túrmerik
½ tsk vanilluduft
nokkur sjávarsaltkorn 
Til að rista: 
1 dl möndlur, saxið
2 dl kókosflögur 
1 dl fræ að eigin vali (t.d. sesamfræ, hampfræ, sólblómafræ...)

Aðferðin

 1. Skerið döðlurnar í litla bita (eða leggið þær í bleyti í 10 mín).
 2. Maukið saman í matvinnsluvél döðlur, hnetusmjör, túrmerik, vanillu og sjávarsalt, þar til orðið að klístruðu deigi.
 3. Á meðan má þurrrista möndlurnar, kókosflögurnar og fræin í ofni, í 5 mínútur á 200°C.
 4. Bætið fræblöndunni út í deigið í matvinnsluvélinni og blandið létt.
 5. Þjappið deiginu niður í ferkantað form eða mótið stangir. Ef þið notið form er best að skera stykkin áður en þau fara í frystinn. 
 6. Setjið í frysti og leyfið stykkjunum að stífna. 
 7. Stykkin geymast best í frysti eða kæli. 

comments powered by Disqus