19/3

Páskaegg

Færsla skrifuð 19. mars 2015

Í okkar fjölskyldu er páskaeggjagerð ómissandi hefð fyrir páskana. Við höfum haldið fast í þessa hefð í gegnum árin vegna þess að okkur finnst samverustundin svo dásamleg, allir hafa gaman af. Þeir eldri og reynslumeiri sjá um að tempra súkkulaðið á meðan þeir yngri og sprækari sleikja sleifar á milli þess sem þeir fá útrás fyrir listræna hæfileika í páskaeggjaskreytingum. Svo hjálpast allir að við að finna skemmtilega málshætti í eggin, ýmist hefðbundna eða heimaskáldaða. 

Okkur finnst mikill kostur að geta valið súkkulaði eftir eigin smekk. Við erum hrifnar af því að nota súkkulaði með Fairtrade stimpil, þannig getum við verið vissar um að aðbúnaður þeirra sem koma að framleiðslunni sé í lagi. 

Aðal málið er auðvitað að finna sitt eigið uppáhalds súkkulaði. Sumir eru hrifnastir af mjög dökku og lítið sætu súkkulaði, aðrir vilja hafa það ljósara og svo getur verið mjög gaman að nota súkkulaði með spennandi bragði. Við prófuðum að nota dökkt súkkulaði með appelsínuolíu, það var alveg dásamlegt. Við gerðum líka egg úr dökku súkkulaði með saltri karamellu og það var sko alls ekki síðra. 

Inn í eggin finnst okkur best að setja þurrkaða ávexti, hnetur og fræ, eitthvað sem passa vel að maula með dökku súkkulaði. Við höfum stundum laumað litlum leikföngum, límmiðum eða öðrum glaðningi inn í eggin fyrir krakkana. Þeir allra yngstu svo fá pappaegg sem hægt er að fylla með rúsínum og öðru góðgæti sem hæfir þeirra aldri. (Gott er að passa að litlu börnin fái ekki eitthvað lítið og hart eins og hnetur eða annað sem getur staðið í þeim). 

Það getur verið mjög gaman að nota smávegis af hvítu súkkulaði til þess að skreyta eggin. Hvítt munstur er hægt að gera með því að setja bráðið hvítt súkkulaði í sprautupoka og sprauta eitthvað fallegt innan í páskaeggjamótið áður en dökka súkkulaðið er sett í mótið. 

1 stórt páskaegg

200g lífrænt súkkulaði (2 x 100g plötur)

Aðferð

Temprun 

 1. Brjótið 1½ súkkulaðiplötu niður í mola og setjið í skál, saxið restina fínt og setjið til hliðar (½ plata).
 2. Bræðið 1½ súkkulaðiplötu rólega yfir vatnsbaði á vægum hita. Hrærið í og fylgist vel með. Ef þið eigið hitamæli er gott að mæla hitastigið á súkkulaðinu sem verið er að bræða og reyna að ná 45°C hita.
 3. Þegar 45°C hita er náð, takið þá skálina úr pottinum og hellið saxaða súkkulaðinu út í til að kæla og hrærið mjög vel.
 4. Þegar saxaða súkkulaðið er bráðnað er mjög gott að halda áfram að hræra og hræra til að fá loft í súkkulaðið á meðan það er að kólna. Súkkulaðið er tilbúið til notkunar þegar blandan er komin niður í 35°C (eða orðið aðeins seigfljótandi ef þið eigið ekki hitamæli).

Í formin

Við hellum tveimur lögum af súkkulaði í hvern helming, en við viljum passa að eggið verði ekki of þykkt, það er girnilegra svolítið þunnt.

 1. Fyrsta lag: Hellið mátulega þunnu lagi af súkkulaði í hvern helming og veltið um til að þekja allt formið. Ef það er of mikið súkkulaði í forminu hellið því þá úr svo það safnist ekki saman á einum stað þegar það storknar. Skafið yfir með hníf svo kanntarnir verði sléttir. Látið standa í um 20 mínútur á bökunarpappír í frysti (gott að byrja með opna hlutann upp í smá stund og snúa svo niður).
 2. Annað lag: Áður en lag nr.2 fer í formin er gott að fara aftur yfir með hnífnum, ef kantarnir hafa safnast upp. Hellið nú meira súkkulaði í og veltið um þar til þekur. Athugið hvort skafa þurfi yfir með hníf. Leggið á smá stund með opna hlutann upp í kæli/frysti og svo á hvolf á bökunarpappír og látið storkna í 30 mín.

Samsetning 

 1. Takið eggin út úr kælinum/frystinum, þið sjáið að eggin eru orðin nógu hörð ef það er komið loft á milli. Ef ekki, setjið aftur inn í kæli í smá stund.
 2. Leggið mótin á hvolf og þá ættu helmingarnir að detta áreynslulaust út.
 3. Best er að hafa helmingana mjög kalda þegar á að líma þá saman svo þeir haldi forminu vel.  
 4. Setjið málsháttinn og allt sem á að fara inn í eggið áður en egginu er lokað.
 5. Notið fljótandi súkkulaði sem lím, því er smurt á kantinn á annarri skelinni og síðan er eggið “límt” saman.
 6. Geymið í kæli í smá stund.
 7. Þar næst setjið þið smá “súkkulaðilím” á fótinn og límið eggið á hann.
 8. Ef kanntarnir eru ekki nógu fallegir má laga þá með því að setja bráðið súkkulaði í sprautupoka og sprauta því allan hringinn.
 9. Nú er kominn tími til að skreyta eggið...allt er leyfilegt! 

comments powered by Disqus