23/3

Páskakonfekt

Færsla skrifuð 23. mars 2016

Við höfum lengi haft það fyrir sið að föndra heimagerð súkkulaði páskaegg fyrir páskadag. Samverustundin er svo notarleg og okkur finnst gaman að leyfa yngstu kynslóðinni að hleypa sköpunarkraftinum á flug í skreytingum og föndri. Í fyrra settum við saman leiðbeiningar fyrir páskaeggjagerð, við keyptum lífrænt og fairtrade súkkulaði og allir fengu að velja sína uppáhalds bragðtegund. 

Við eigum eftir að útbúa páskaeggin í ár, en erum búnar að búa til lítil konfekt egg úr heimalöguðu súkkulaði. Í þetta súkkulaði notum við döðlur til að sæta, sem kemur alveg ljómandi vel út. Við notuðum lítil páskaeggjamót. Þið getið sem best notað þau mót sem þið eigið, til dæmis venjuleg konfekt mót eða jafnvel ísmolamót. Best er að hafa molana ekki of stóra.

Þegar súkkulaðiblandan er tilbúin er mjög gott að bæta ristuðum hnetum, möndlum, fræjum eða rúsínum og þurrkuðum ávöxtum út í, eftir smekk. 

Uppskriftin

200g döðlur, mjög smátt saxaðar
170g kakósmjör, fljótandi (gott að bræða yfir vatnsbaði)
100g kakóduft
½ - 1 tsk vanilluduft
¼ tsk sjávarsaltflögur


Aðferð

  1. Skerið döðlurnar mjög smátt (mikilvægt). 
  2. Setjið smátt skornu döðlurnar í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til döðlurnar verða að mauki. Best að láta þær klístrast alveg saman og verða að litlum döðlubolta. 
  3. Bræðið kakósmjör yfir vatnsbaði á meðan matvinnsluvélin er að vinna.
  4. Setjið nú fljótandi kakósmjör, kakóduft, vanillu og salt út í og látið maukast þar til þetta verður alveg kekklaust. 
  5. Eitt trikk: hellið súkkulaði blöndunni yfir í blandara því þá verður blandan alveg silkimjúk. 
  6. Ef þið viljið getið þið hrært hnetum og rúsínum út í súkkulaðið áður en þið hellið í mótin. 
  7. Hellið nú í páskaeggjamót/konfektmót og setjið inn í frysti. 
comments powered by Disqus