7/4

Páskamolar

Færsla skrifuð 7. apríl 2017

Eins og kannski flestum finnst okkur mæðgum gott súkkulaði mikilvægur partur af stemningunni yfir páskahátíðina. Við útbúum oft eitthvað gott heimagert konfekt eða nammi við þetta tilefni. Svo höfum við mjög gaman af að föndra okkar eigin páskaegg úr góðu lífrænu súkkulaði og fyllum þau með því sem okkur þykir passa best með súkkulaðinu: hnetum, fræjum og þurrkuðum ávöxtum. Hér er hægt að sjá leiðbeiningar fyrir páskaeggjagerð. Í fyrra gerðum við lítil konfektegg úr döðlum og kakósmjöri.
Í ár er það konfekt með tvennskonar fyllingu, sem við berum fram í pappaeggjum. 

Mmm... súkkulaðihúðaðir salthnetubitar og kókoskúlur í súkkulaðihjúp.

Við búum til fyllingu sem við mótum í kúlur eða bita og geymum í kæli/frysti á meðan við bræðum lífrænt dökkt súkkulaði. Svo dýfum við köldum molunum í bráðið súkkulaðið og leggjum molana á grind eða bökunarpappír á meðan súkkulaðið stífnar. Konfektið geymum við svo í kæli/frysti. 

Eitt af því sem okkur finnst mikilvægt þegar við kaupum súkkulaði er að athuga hvort það hafi örugglega sanngirnisvottun, eða FairTrade stimpil, svo við séum vissar um að aðbúnaður allra sem koma að framleiðslunni sé í lagi. Það er eins og bragðið verði betra við þá fullvissu.

 

  

Hnetubitar

Hnetubitar

200g döðlur, smátt saxaðar
2 ½ dl salthnetur eða ristaðar möndlur
1 ¼ dl hnetusmjör
1 msk kókosolía
1 msk hlynsíróp
1 tsk vanilla
¼ tsk sjávarsalt

 1. Setjið döðlur, kókosolíu, hlynsíróp, vanillu og salt í matvinnsluvél og maukið. 
 2. Bætið hnetusmjöri út í og blandið.
 3. Að síðustu bætum við hnetunum/ristuðu möndlunum út í. 
 4. Snjallt er að þrýsta deiginu í form og kæla í frysti. Skera síðan í passlega bita.
 5. Bræðið 70% dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði.
 6. Dýfið köldum hnetubitum í súkkulaðið með gaffli, leyfið auka súkkulaðinu aðeins að leka af áður en sett er á grind eða bökunarpappír til að stífna.
 7. Geymist best í kæli eða frysti. 


Kókosmolar

Kókosmolar

3 ½ dl kókosmjöl
1 ¾ dl kókosmjólk (notum bara þykka partinn af kókosmjólkinni, setum dósina inn í ísskáp og þá stífnar hún að hluta til og við notum stífa partinn)
½ dl fljótandi sæta, t.d. agave síróp eða hlynsíróp (hlynsírópið gerir fyllinguna aðeins dekkri á lit)
1 msk kókosolía
nokkur saltkorn

 1. Setjið allt í matvinnsluvél og blandið þar til þetta verður að þykkri og svolítið klístraðri fyllingu.
 2. Gott er að setja fyllinguna í smá stund inn í ísskáp og láta stífna svo auðvelt sé að móta kúlur.
 3. Geymið kúlurnar í frystinum/kæli á meðan súkkulaðið er brætt, þannig verður húðunin auðveldari.
 4. Bræðið 70% dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði.
 5. Dýfið köldum kúlum í súkkulaðið og leggið á grind/bökunarpappír og látið storkna.
 6. Geymið í kæli/frysti.

Njótið!

comments powered by Disqus