29/6

Rabarbara kompót

Færsla skrifuð 29. júní 2016

Við mæðgur eigum margar góðar minningar tengdar rabarbara. Sem börn áttum við það báðar til að næla okkur í glænýja rabarbarastöngla úti í garði og laumast svo til að dýfa þeim á bólakaf í hrásykurkarið. Dísætar minningar! Amma Hildur bauð síðan reglulega upp á dásamlegan rabarbaradesert, sem var og er í miklu uppáhaldi hjá okkur (uppskriftina má finna í bókinni okkar Himneskt - að njóta, í kaflanum um vorið). 

Rabarbaraplöntur vaxa auðveldlega hér á landi og eiga það til að fara á mikið flug snemmsumars og gefa ríkulega af sér. Einhverjir kannast kannski við árlegt rabarbarapanikk, þar sem löngum kvöldum er varið í að skera niður ofgnótt rabarbara til að koma uppskerunni á geymsluhæft form. Þetta árið erum við mæðgur reyndar með hóflega rabarbarauppskeru, erum bara með smávegis rabarbara í stórum potti úti á palli. Það er vel hægt að rækta rabarbara þó að garðplássið sé ekki mikið, í rúmgóðum potti úti á svölum, stéttinni eða pallinum. Við nýtum rabarbarann okkar svo til jafnóðum, skreppum út í garð og tínum einn og einn fallegan ungan stöngul til að nota í matargerð. Þá veltum við gjarnan rabarbarasneiðum upp úr chili, salti og kókosolíu og bökum þær svo í ofni.  Ofnbakaðar kryddaðar rabarbarasneiðar eru mjög skemmtilegar í salöt og ofan á pizzur. 

Núna nýlega fengum við svo slatta af fínum rabarbara úr garðinum hjá afa Eiríki og ömmu Hildi. Okkur fannst því upplagt að útbúa rabarbarakompót, sem er hægt að nota á fjölbreyttan hátt. Rabarbarakompót er ekki jafn sætt og rabarbarasulta, en má nota á svipaðan hátt. Okkur finnst til dæmis mjög gott að setja kompót út á morgungrautinn. Rabarbarakompót er líka gott á vöfflur, lummur, í hjónabandssælur og rabarbarapæjur, í rabarbaradesertinn hennar ömmu og gómsætt út á ís. Við ætlum svo að frysta hluta af kompótinu til að nota síðar.

Sú eldri fékk þá hugmynd að blanda smávegis af rauðrófusafa út í, til að halda þessum djúprauða lit. Það kom ljómandi vel út, maukið varð sérlega fallegt á litinn. Við notuðum líka örlítið kakósmjör, það gefur fallegan gljáa og dýpt í bragðið. Það er ekki bráðnauðsynlegt í uppskriftina, en gefur þó sparilegra bragð og okkur finnst það ljómandi gott.

Rabarbara kompót

1 kg rabarbari, skorin í sneiðar 
400g hindber, mega vera frosin 
2 dl rauðrófusafi 
200g hrásykur eða kókospálmasykur
50 g kakósmjör 
1 tsk vanilluduft 
nokkur korn af sjávarsalti 
smá chiliflögur, ef vill

Sjóðið saman í 40 mín við vægan hita og kælið svo.
Hraðatrikk fyrir óþolinmóða: Sjóðið allt saman í 15 mín, bætið þá út í 1-2 msk af möluðum chiafræjum og látið sjóða áfram í 5 mín og kælið svo.

Tröllahafra og chiagrautur

5 dl tröllahafrar 
1 msk chiafræ 
8 dl vatn 
1 tsk kanill 
1/4 tsk sjávarsaltflögur
svolítið af kókosflögum til að strá út á - ristið örstutt á pönnu eða í ofni

Setjið allt í pott og sjóðið saman þar til þetta er orðið að mátulega þykkum graut. Bætið smá vatni út í ef þið viljið hafa grautinn þynnri. Afgangurinn geymist í loftþéttu íláti í kæli í nokkra daga.

comments powered by Disqus