26/4

Ravioli með sætkartöflufyllingu

Færsla skrifuð 26. apríl 2017

Þessi réttur er í sérstöku uppáhaldi hjá okkur mæðgum. Heimagert ravioli með sætkartöflufyllingu og steiktum sveppum, heslihnetum og ólífuolíu. Algjör himnasæla. 

Heimagert pasta hljómar kannski eins og frekar mikið vesen. En í rauninni er það ekkert flóknara en hver önnur matargerð. Það er bara með þetta eins og það sem maður hefur ekki prófað áður, fyrsta skipið fer oft svolítið í að átta sig á aðferðinni og svo verður þetta ekkert mál. Og þetta ravioli er algjörlega þess virði!

Í þetta sinn notuðum við heimalagaðan jurtaost í fyllinguna, en það gerum við ekki alltaf. (Hér er uppskriftin okkar að jurtaosti, við áttum til svolítinn afgang í ísskápnum sem var tilvalið að nota í ravioli). Í fullkomnum heimi myndum við mæðgur velja okkur að útbúa allan mat frá grunni, en auðvitað höfum við ekki alltaf tíma til þess frekar en aðrir, og förum oft styttri leiðina að hlutunum. Þegar maður er að prófa að gera heimagert pasta í fyrsta sinn, þá er kannski bara snjallt að einbeita sér að einu nýju atriði í einu og nota þann ost sem er við hendina. Úrvalið af jurtaostum er orðið svakalega gott í búðunum, okkar uppáhalds er gerður úr möndlum. En notið endilega bara þann smurost sem ykkur þykir bestur. 

Við trúum því að það sé gott fyrir heilsuna að útbúa stóran hluta af matnum okkar frá grunni, en hins vegar er alveg örugglega ekki heilsusamlegt að fá samviskubit yfir því að gera það ekki. Við bara reynum okkar besta, og svo njótum við þess í botn að borða það sem við veljum okkur hverju sinni, heimagert eða ekki. Okkar reynsla er líka sú að þegar við virkilega njótum hvers bita erum við miklu líklegri til að hætta þegar við höfum fengið nóg. Þegar lífið er á fleygiferð er auðvelt að gleyma þessu einfalda ráði (lesist: við erum alltaf að gleyma því sjálfar) svo þess vegna finnst okkur ágætt að minna okkur á:


Slökum á og njótum þess að borða í rólegheitum. Það er líka svo miklu skemmtilegra.
En vindum okkur þá í aðalatriðið, sem er þetta ljúffenga ravioli! Við byrjum á að hræra í pastadeig, og á meðan deigið hvílir sig útbúum við fyllinguna. Svo fletjum við deigið út, setjum fyllinguna í og þá er það tilbúið í pottinn, og það þarf bara að sjóða í 3 mínútur. 


Aðferðin

Fletjum deigið út og skerum út hringi eftir glasi eða undirskál (10 cm þvermál)

Komum fyllingunni fyrir

 

Lokum hverjum hring með fingrunum (þétt puttaför)

Hálfmánar tilbúnir í pottinn

Svo er bara að setja ravioli varlega ofan í pott með sjóðandi vatni í örstutta stund og steikja sveppi á meðan. Og þá er kominn matur!

Sætkartöflufyllt Ravioli

Ravioli deig

1 1/2 b fínt spelt
1 1/2 b gróft spelt
3/4 tsk sjávarsalt
1 b vatn
2 msk jómfrúar ólífuolía
1-2 msk kjúklingabaunamjöl/maísmjöl

 1. Blandið saman mjöli og salti í skál. Bætið vatni og ólífuolíu út í. Hnoðið þar til þetta er orðið að deigkúlu. Ef deigið er of þurrt, bætið smá vatni út í en ef það er of blautt/klístrað bætið smá spelti út í.
 2. Stráið spelti á borð og hnoðið deigið í um 5-10 mín eða þar til þetta er orðið að mjúku og teygjanlegu deigi.
 3. Þegar deigið er orðið að kúlu er gott að smyrja það með smá ólífuolíu og setja síðan í hreina skál, hylja með viskastykki og láta hvíla í um 30 mínútur. Á meðan er ráð að útbúa fyllinguna.
 4. Fletjið deigið út, frekar þunnt. Notið eitthvað hringlótt til að skera út hringi í deigið (t.d. glas eða lítinn disk). Við höfum okkar hringi ca 10 cm í þvermál.
 5. Setjið 1 væna skeið af fyllingu á hringinn og lokið með fingrunum.  
 6. Setjið út í sjóðandi vatn og látið vera í um 3 mín. (Á meðan er snjallt að steikja sveppina á pönnu)  
 7. Takið upp úr með götóttum spaða, látið vatnið renna aðeins af. 
 8. Berið fram með steiktum sveppum, ristuðum hnetum og stráið yfir steinselju og nokkrum sjávarasaltkornum og skvettu af góðri ólífuolíu.

Fyllingin

300g bakaðar sætar kartöflur (bakið ca 400g í ofni)
100g möndluostur eða annar vegan smurostur
75g ristaðar heslihnetur, gróft saxaðar
1 msk næringarger
1 tsk rósmarín
1 tsk sjávarsaltflögur
1 tsk smátt saxaður chili eða ¼ tsk chiliflögur

 1. Byrjið á að þvo, afhýða og skera sætar kartöflur í u.þ.b. 2x2 cm bita, setjið á ofnplötu með kókosolíu, sjávarsaltflögum og nokkrum rósmarín nálum og bakið við 190°C í 12-15 mín.
 2. Þegar sætu kartöflurnar eru tilbúnar, nýtið þá ofnhitann og ristið 125g heslihnetur í ofninum, í u.þ.b. 5 mínútur. Látið hneturnar kólna aðeins, nuddið jafnvel smá af hýðinu af með viskustykki. Geymið tæpan helming af hnetunum til að nota með sveppunum á eftir, restin fer í fyllinguna.
 3. Setjið nú öll hráefnin í skál og klípið eða hrærið saman.

Ofan á:

200g sveppir, skornir í sneiðar og steiktir á pönnu í smávegis olíu
50g ristaðar heslihnetur
2 msk steinselja, söxuð
smá sjávarsaltflögur
skvetta af jómfrúar ólífuolíu

Njótið!

comments powered by Disqus