15/1

Regnbogaskammturinn

Færsla skrifuð 15. janúar 2016

Við mæðgur tókum smá "nýársnúllstillingu" núna fyrir skemmstu. Matseðillinn var litríkur, samanstóð af grænum djús, fjólubláum sjeik, eldrauðri grænmetissúpu og kexi. Okkur finnst þetta eiginlega vera orðin ómissandi nýárs athöfn, og partur af því að bjóða nýtt og ferskt ár velkomið. Best finnst okkur að velja dag í janúar þar sem við höfum tíma til að taka því rólega, hugleiða svolítið og fara aðeins út til að anda að okkur fersku janúarloftinu. 
(Leiðbeiningar + matseðil + innkaupalista + uppskriftirnar má finna í Himneskt - að njóta, á bls. 204-207).

Reyndar finnst okkur voða gott að byrja daginn stundum á grænum safa eða litfögrum sjeik, allan ársins hring. 

 

Munurinn á söfum og sjeikum

Við safagerð skiljum við stóran hluta trefjanna frá safanum, næringin berst hraðar til okkar og safinn virkar því oft sem orkuskot. Okkur finnst skynsamlegt að miða við að hlutfall grænmetis sé hærra en ávaxta í safagerð, þannig fáum við fullt af næringarefnum, en ekki of skyndilegan sykurskammt. Við geymum svo hratið til síðari nota, til dæmis í bakstur, í grænmetisbuff, útí næsta sjeik eða í hrökkbrauðsgerð. Ef enginn tími er til þess að nota hratið er alltaf hægt að setja það á safnhauginn og nota það sem næringu fyrir moltuna.

Þegar við gerum sjeik fáum við hinsvegar matarmeiri drykk og innbyrðum allan ávöxtinn/grænmetið. Ekkert fer til spillis og við fáum allar trefjarnar með. Þess vegna mætti í rauninni líta á sjeik sem máltíð, frekar en drykk. Trefjarnar metta vel og dempa sykursveiflur. Við pössum samt sem áður upp á að hafa ávaxtamagnið hóflegt, og að hafa prótein og góða fitu með. Þá verður þetta næringarrík og saðsöm máltíð. Okkur finnst gott að tyggja aðeins fyrstu sopana, svona til að láta meltinguna vita að nú sé máltíð á leiðinni.

Regnbogaskammturinn

Í safa og sjeikagerð er tilvalið að hafa litasamsetninguna í huga, fagurlitaður drykkur er yfirleitt mun girnilegri en allir fallegu litir regnbogans blandaðir í einn dularfullan brúnan sjeik.... (nema það sé súkkulaðisjeik mmmm...)

Í rauninni er það svo að plöntuefnin sem gefa plöntum sinn fallega djúpa lit hafa ýmsa góða eiginleika til að bera sem nýtast okkur mönnunum líka. Mismunandi tegundir plöntuefna hafa mismunandi lit og mismunandi virkni. Þess vegna er svo gott að velja litrík matvæli og reyna að borða fjölbreytt úrval af grænmeti og ávöxtum, í öllum regnbogans litum. Sjeikar og safar eru ein leið til að fá hluta af regnbogaskammtinum, en svo er auðvitað líka mikilvægt að hafa fjölbreytt og litríkt grænmeti á matardisknum...til að tyggja. 

Hér eru nokkrar þumalputtareglur sem við notum mikið þegar við byggjum upp morgunsjeik.
Og að lokum þrjár nýjar uppskriftir; tveir góðir grænmetisdjúsar og einn dásamlegur hindberjasjeik. 

Þrír litfagrir drykkir

Grænn djús fyrir 2

5 grænkálsblöð
1/4 brokkolí
1/4 agúrka
1/2 fennel
2 sellerístönglar
1 sítróna
1 msk engiferskot

Allt sett í gegnum djúsvél eða skorið í bita og sett í blandara ásamt 1 dl af vatni og blandað saman. Sigtað í gegnum spírupoka.

Gulur djús fyrir 2

2 gulrætur
1/4 ananas
1/4 agúrkur
1 límóna
1 - 2 tsk lífrænt turmerik (krydd) eða 5 cm turmerikbiti
1/4 tsk svartur pipar
1 msk engiferskot

Allt sett í gegnum djúsvél eða skorið í bita og sett í blandara ásamt 1 dl af vatni og blandað saman. Sigtað í gegnum spírupoka.

  

Bleikur sjeik fyrir 2

1 dl möndlur, gott að leggja í bleyti yfir nótt
4 dl vatn
2 dl hindber
5 döðlur
1 msk kókosolía
1 msk hampfræ
1 msk engiferskot

Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt.
Þessi bleiki sjeik bragðast svolítið eins og desert, hann hentar vel þegar mann langar í smá lúxus. Svo er vel hægt að bæta grænmeti út í, hann verður áfram mjög bragðgóður.

...og munum að njóta!

comments powered by Disqus