8/3

Súkkulaði Avókadó Terta

Færsla skrifuð 8. mars 2015

Stærsti kosturinn við þessa dásemdar Súkkulaði Avókadó Tertu er líklega að hún inniheldur bara 4 hráefni. Það er ekki hægt að klúðra henni því hún er svo einföld!

Hafið þið prófað að nota avókadó í deserta? Ef ekki þá verðið þið eiginlega að drífa í því að prófa. Vel þroskað avókadó hefur svo dásamlega mjúka og kremaða áferð, sem gerir það fullkomið í kremgerð. Svo flokkast avókadó líka sem hollur fitugjafi, inniheldur til að mynda hátt hlutfall af góðum einómettuðum fitum. Þó svo að við séum að útbúa desert, þá er allt í lagi að nota hollt hráefni í bland, sérstaklega ef það er gott á bragðið.

Við ætlum ekki að lofa að tertan sé kaloríulaus, en kaloríurnar eru að minnsta kosti ekki alveg innantómar. Svo er tertan saðsöm og bragðmikil, það þarf ekki stóra sneið til að metta og kæta bæði líkama og sál!

Við bárum tertuna fram með maukuðum hindberjum, okkur fannst ekkert þurfa að sæta hindberin, en það fer eftir smekk. Sumum finnst gott að blanda smá hlynsírópi saman við hindberin til að sæta þau. 

Best er að velja sitt uppáhalds súkkulaði í kremið. Okkur finnst mikilvægt að velja súkkulaði með Fairtrade vottun. Við prófuðum að nota dökkt piparmyntu súkkulaði (lífrænt) og það var alveg dásamlegt. Dökkt appelsínusúkkulaði eða dökkt með saltri karamellu er örugglega alveg ótrúlega gott líka, kannski við prófum það næst. Því dekkra sem súkkulaðið er, því meira kakó og minni sykur er í súkkulaðinu og því minna sætt bragð verður af kreminu. Smekkurinn er svo misjafn, sumir vilja hafa deserta dísæta, aðrir hóflega sæta. Um að gera að velja eftir eigin smekk.

Gott kaffi eða ilmandi te fer vel með tertunni.
Og svo auðvitað góður félagsskapur, hún verður margfalt betri í góðra vina hópi!

Uppskriftin

Botninn
2.5 dl þurrkaðar döðlur
2.5 dl pekanhnetur
+ nokkrar sjávarsaltflögur

Fyllingin
2 stór avókadó eða 4 lítil, passlega þroskuð
200g lífrænt 70% súkkulaði (eða ykkar uppáhalds súkkulaði)

Aðferð

  1. Setjið pekanhneturnar í matvinnsluvélina og malið svona milli gróft.
  2. Bætið döðlunum út í og blandið þar til þetta klístrast vel saman.
  3. Þrýstið niður í form og setjið inn í frysti á meðan þið búið til fyllinguna.
  4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, takið af hellunni og látið kólna án þess að súkkulaðið stífni.
  5. Afhýðið avókadóin og setjið í matvinnsluvél og hellið súkkulaðinu útí og maukið þar til þetta er orðið alveg silkimjúkt og kekklaust.
  6. Hellið fyllingunni í botnin og setjið tertuna svo inn í kæli til að stífna, í 30 - 60 mín.
  7. Ef þið geymið tertuna í frysti er gott að taka hana út láta standa aðeins áður en þið gæðið ykkur á henni, hún á að vera mjúk en ekki frosin. 

comments powered by Disqus