30/1

Súkkulaði kókos ís

Færsla skrifuð 30. janúar 2016

Hvað er betra en hugguleg kvöldstund með silkimjúkum og kremuðum súkkulaði-kókos-ís? 

Heimalagaður ís fær yfirleitt besta áferð ef notuð er ísvél. (Svoleiðis vélar er hægt að fá á góðu verði í búsáhaldabúðum). Það sem ísvélin gerir er að hræra reglulega í blöndunni á meðan hún er að frjósa, og kemur þannig í veg fyrir að ísnálar myndist í ísnum. Ef engin ísvél er á heimilinu er hægt að frysta beint í formi, en þá hjálpar til að taka formið út nokkrum sinnum og hræra aðeins í blöndunni við og við á meðan hann er að frjósa. Áferðin verður öðruvísi, ísinn verður oft aðeins harðari, en bragðið gott engu að síður. 

Þessi súkkulaðiís sem við gerðum síðustu helgi er virkilega bragðgóður og langbestur nýlagaður úr ísvélinni. Þegar ísinn er tilbúinn er hægt að færa hann yfir í form og geyma hann þannig í frysti. Áferðin er best þegar ísinn er nýr, við mælum með því að njóta hans sem fyrst eftir lögun. Mmmm....

Þeir sem taka þátt í Veganúar geta notið súkkulaðiíssins með góðri samvisku.

Uppskriftin

1 dós kókosmjólk (coconut cream)
2 frosnir banana
2 msk hreint kakóduft
50g hlynsíróp eða önnur sæta
1 tsk vanilluduft
smá cayenne pipar
50g dökkt súkkulaði (70%, helst fairtrade), gróft rifið

Aðferðin

  1. Setjið allt nema súkkulaðið í blandara og blandið vel.
  2. Hellið í skál, bætið rifnu súkkulaði út í.
  3. Kælið (í ísskáp).
  4. Setjið í ísvél (ef þið eigið) og fylgið leiðbeiningunum með vélinni. Setjið annars í form og frystið, gott að hræra við og við.
  5. Njótið!!!

comments powered by Disqus