7/12

Súkkulaðibita smákökur

Færsla skrifuð 7. desember 2015
Mikið er nú huggulegt að baka svolítið saman á aðventunni, inni í hlýju eldhúsi sama hvernig viðrar. Og ilmurinn... þessar súkkulaðibitakökur voru alveg ómótstæðilegar, eiginlega aðeins of góðar. Kökurnar hurfu fljótt ofan í fjölskyldumeðlimi og fína kökuboxið strax orðið galtómt...
... okkur fannst erfitt að bíða og leyfa kökunum að kólna/stífna.

Uppskriftin

2½ dl kókosolía (líka hægt að nota t.d.Vegan smjör) - við stofuhita
3 dl kókospálmasykur
4 dl fínt malað spelt
1 tsk vanilla
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
2-3 msk vökvi (t.d. kókosmjólk eða önnur jurtamjólk)
2 dl heslihnetur, þurrristaðar og smátt saxaðar
150 g dökkt súkkulaði (helst fairtrade), saxað

Aðferðin

  1. Setjið kókosolíu og kókospálmasykur í matvinnsluvél og hrærið saman.
  2. Bætið spelti, vanillu, matarsóda og salti útí og hrærið í smá stund eða þar til þetta hefur hrærst vel saman.
  3. Bætið þá vökvanum útí og hrærið örstutt eða þar til hann hefur blandast vel saman við deigið.
  4. Ef deigið virðist of þurrt má bæta smá vökva/olíu í deigið.
  5. Bætið að lokum heslihnetum og súkkulaðibitum útí og hrærið þar til þetta hefur blandast vel saman.
  6. Setjið deigið inn í ísskáp í klukkutíma áður en þið setjið á plötu og bakið.
  7. Notið teskeið við að setja deig-kúlur á plötuna, kökurnar fletjast vel út svo passið að hafa gott bil á milli.
  8. Bakið við 180°C í 8-10 mín.
  9. Látið kólna áður en þið freistist til að smakka.
comments powered by Disqus