25/7

Sumarlegt Kimchi

Færsla skrifuð 25. júlí 2016

Léttsýrt og kryddað sumargrænmeti

Við mæðgur ólumst upp við að borða sýrt grænmeti með flestum mat. Okkur finnst sýrt grænmeti algjört lostæti og það er fyrir löngu orðinn ómissandi partur af matarhefð fjölskyldunnar. Okkur líður svo vel af því og við erum ekki frá því að það hjálpi aðeins til við að halda meltingunni okkar í jafnvægi. Á haustin sýra amma Hildur og afi Eiríkur stóran hluta uppskerunnar sinnar, og undanfarin ár höfum við verið að fikta við þetta sjálfar líka. Eina af fjölskyldu-uppskriftunum má finna í bókinni okkar Himneskt – að njóta í kaflanum um haustið. Þá uppskrift ætlum við að sjálfsögðu að gera í haust. En það er ekki alveg tímabært ennþá, við bíðum eftir að uppskera rótargrænmetið.

Til eru margar aðferðir við að útbúa svona súrt og í matarhefð flestra menningarsvæða eru til einhvers konar uppskriftir af sýrðu grænmeti. Kimchi er hefðbundið meðlæti í Kóreu, sem í dag er orðið mjög vinsælt víða um heim. Kimchi er til í ótal útgáfum og aðferðirnar eru margar. Við gerum stundum “íslenskaða útgáfu” af Kimchi og notum þá helst grænmeti sem vex í görðunum okkar eða er ræktað í gróðurhúsum hér. Hefðbundið Kóreiskt kimchi er frekar sterkt, en við höfum okkar ögn mildara. Það er smekksatriði og þeir sem vilja gefa bragðlaukunum kikk geta að sjálfsögðu bætt meira af chilipipar í uppskriftina. Þessa uppskrift er upplagt að útbúa yfir hásumarið, því hún er auðveld og fljótgerð og mikið er til af fallegu grænmeti núna og fram eftir hausti.

Við notuðum grænkál, beðjur og radísur úr okkar garði. Við fundum síðan fallegar rófur og fleira glænýtt grænmeti úti í búð. Kryddjurtirnar komu úr gróðurkassanum okkar. Þetta grænmeti er auðvitað bara listaverk útaf fyrir sig!

Uppskriftin

1 kúrbítur 
10 grænar sykurertur 
2 grænkálsblöð 
2 beðjublöð og stönglar 
4 radísur 
1 gul rauðrófa eða venjuleg rófa 
½ brokkolíhöfuð 
1 rósmarinstöngull 
nokkrir ferskri timíanstönglar 
2-3 mintublöð 
2-3 sítrónumelissublöð 
3 msk sjávarsaltflögur

Ediklögur

2 dl eplaedik 
1 msk tamarisósa 
1 msk hlynsýróp 
1 msk engiferskot (hreinn engifersafi)
2 pressuð hvítlauksrif 
1 tsk fínt saxaður ferskur chili

Aðferðin

  1. Skerið grænmetið í frekar fína strimla/lengjur. (Gott að nota mandolín)
  2. Setjið í stóra skál, bætið kryddjurtunum út í (í heilu lagi) og blandið saman.
  3. Gefið grænmetinu “létt nudd” með því að kreista það svo það opnist.
  4. Útbúið ediklöginn, öllu hrær saman í lítilli skál eða könnu.
  5. Hellið leginum yfir grænmetið og nuddið inn í grænmetið í 1-2 mín.
  6. Breiðið hreinan klút eða viskastykki yfir skálina og látið marinerast við stofuhita í a.m.k. 2 klst, eða yfir nótt.
  7. Setjið í krukkur og geymið í ísskápnum.
  8. Njótið!

comments powered by Disqus