16/3

Tahini brúnkur

Færsla skrifuð 16. mars 2017

Núna nýlega helltist afar ákallandi löngun í sætindi með tahini ívafi yfir okkur mæðgurnar. Dálæti okkar á tahini er ekki nýtt af nálinni. Kannski hafið þið einhverntíman smakkað halva? Halva er vinsælt sælgæti víða um heim, reyndar til í fjölmörgum útgáfum, en oft er uppistaðan aðallega  maukuð sesamfræ (tahini) og síróp. Þegar sú yngri var lítil hnáta og sú eldri ung móðir, var tahini-halva uppáhalds sælgætið okkar. Ætli nostalgían og dálæti okkar á tahini-sætindum komi ekki þaðan. Þennan dag fannst okkur því tilvalið að fylgja kölluninni og baka uppáhalds brúnkurnar okkar, Tahini-brúnkur.

Sesamkeimurinn blandast ríkulegu súkkulaðibragðinu sérlega vel. Og þegar við bítum í kökurnar er áferðin svona örlítið klístruð og seig en á sama tíma mjúk og dásamleg. 
Mmm... og stökkar ristaðar heslihnetur...


Tahini brúnkurnar eru í mjög miklu uppáhaldi hjá okkur. Þetta eru ekki dísætar bombur, bara svona passlega svakalega góðar brúnkur.***

Þegar við bökum köku viljum við að sjálfsögðu að hún sé góð á bragðið. Það er algjört grundvallarhlutverk köku að vera ljúffeng. Og okkur mæðgum finnst gott að gæða okkur á góðri köku. En í okkar huga þarf góð kaka hvorki að fara yfir strikið í lúxusnum né vera fullkomlega holl og heilög. Okkur finnst nefnilega fínt að blanda þessu svolítið saman, svo lengi sem útkoman er bragðgóð og við njótum kökusneiðarinnar og líður vel af henni. 

Fleira en hvítt hveiti og smjörlíki getur verið æðislega gott á bragðið. Til dæmis er hægt að nota holla fitugjafa eins og fræ, hnetur, avókadó, ólífuolíu, tahini, möndlusmjör osfrv í sætindi. Þetta er næringarík og orkurík fæða sem bragðast ljómandi vel og passar oft mjög vel í sætindi, þó svo að í okkar matarmenningu hér í norðrinu hafi verið hefðbundnara að nota smjör og smjörlíki í bakstur. Svo finnst okkur mjög gómsætt að nota mjöl sem er bragðmeira og oft líka næringarríkara en hvítt hveiti. T.d. er haframjöl og heilhveiti og gróft spelt mjög gott í bakstur, ásamt mörgum öðrum mjöltegundum. Við erum alls ekki að segja að hófleg notkun á hvítu hveiti sé óæskileg, það er bara til svo margt fleira sem er líka gott á bragðið. Markmiðið er að sjálfsögðu alltaf að búa til eitthvað gott, og við njótum þess að bjóða bragðlaukunum upp á nýjar samsetningar. 

***

 

Tahini-brúnkurnar slógu ekki síður í gegn hjá krökkunum

Einhverjum gæti þótt tahini of bragðmikið, þá er um að gera að skipta því út fyrir möndlusmjör, sem er mun mildara og hlutlausara á bragðið.

Tahini brúnkur

1 krukka tahini (1 bolli)
2 bollar kókospálmasykur
2/3 bolli möndlumjólk
2 msk kókosolía
2 tsk vanilla
2 ½ bollar haframjöl, malað fínt í mjöl (í kryddkvörn eða matvinnsluvél)
¾ b kakóduft
1 msk vínsteinslyftiduft
½ b ristaðar og saxaðar heslihnetur

  1. Hrærið tahini, möndlumjólk, kókosolíu, kókospálmasykri og vanillu saman í hrærivél.
  2. Blandið möluðu haframjölinu, kakódufti og vínsteinslyftidufti saman í skál og setjið svo rólega út í hrærivélina, á meðan hún er að hræra.
  3. Bætið að lokum ristuðum heslihnetunum varlega út í deigið.
  4. Setjið bökunarpappír í form, við notuðum 24x29cm.
  5. Hitið ofninn í 175°C og bakið í ca 20 mínútur.

Njótið!

comments powered by Disqus