29/11

Þegar piparkökur bakast

Færsla skrifuð 29. nóvember 2014

Nú er aðventan gengin í garð og þá er ekki seinna vænna að hefja piparkökubakstur. Börnin elska að baka piparkökur og eiga góða stund í eldhúsinu með fullorðna fólkinu. Best finnst okkur þegar baksturinn fer fram í rólegheitum og fókusinn er á samverustundina frekar en á mikil afköst og stútfull box af fullkomnum kökum. 

Við höfum oftast haft þann háttinn á að baka hóflega skammta í einu, geymum allavega helminginn af deiginu inni í ísskáp og svo þegar tíminn leyfir endurtökum við leikinn. Í okkar huga eru samveran með börnunum og ilmurinn úr ofninum aðal atriðið og alveg þess virði að njóta þess oftar en einu sinni á aðventunni. Ef deigið er tilbúið fyrirfram gefst meiri tími til að dunda sér við verkið, en það er svo sem ekkert tímafrekt að hræra í piparkökudeig. Kökurnar klárast yfirleitt fljótt hjá okkur, enda skammturinn hóflegur og þá er freistingin að narta í kökur alla daga desembermánaðar ekki til staðar, bara næst þegar er bakað. Þetta finnst okkur hið fínasta fyrirkomulag, en hver fjölskylda hefur auðvitað sínar hefðir sem er um að gera að halda í heiðri. Jólin og aðventan eru jú tími fjölskylduhefðanna.

Sumir í fjölskyldunni vilja bara gera eina piparköku með hverju móti. 

Piparkökur mega vera vel kryddaðar, sérstaklega þegar þær eru aðeins minna sætar á bragðið en venjan er. Þá er tilvalið að auka aðeins við kryddið á móti. Þessi uppskrift er frekar mild, en það er mjög gott að auka aðeins á krydd skammtinn ef þið viljið bragðmeiri kökur. Þessar piparkökur henta þeim sem aðhyllast Vegan lífsstíl og líka þeim sem eru með eggja- eða mjólkurofnæmi, því við notum hvorki mjólkurvörur né egg í þessa uppskrift.

Okkur langaði að skreyta kökurnar, en áttum hvorki til matarliti né flórsykur. Það kom þó ekki að sök því í ísskápum leynast ýmsir fallegir litir ef vel er að gáð. Litsterkur safi/mauk úr ávöxtum eða grænmeti hentar til dæmis vel. Maukuð hindber eða jarðaber gefa bleikan lit, bláber gefa fjólubláan, hægt er að nota smá turmerik eða maukað mangó fyrir gulan lit, grænan safa til að lita grænt, kaffi eða kakó fyrir brúnt og svo framvegis. Hægt er að hræra þessum náttúrulegu litum út í flórsykur og vatn til að búa til litfagurt glassúr. Við notuðum reyndar bara það sem var til í eldhúsinu þann daginn: nokkur frosin hindber, kókospálmasykur og kakósmjör. Þetta gaf ótrúlega fallegan vínrauðan lit og frábært hindberjasúkkulaði bragð. Glassúrinn storknaði reyndar ekki fullkomlega, en það gerði ekkert til því kökurnar kláruðust samdægurs. Ef ykkur langar að búa til glassúr úr náttúrulegum litum sem storknar algerlega er líklega sniðugra að hræra flórsykur saman við eitthvað litsterkt og bragðgott úr eldhúsinu.

Uppskriftin

Piparkökur (stór uppskrift, má minnka)
1 ½ dl hlynsíróp eða önnur fljótandi sæta
2 ½ dl kókospálmasykur
1 ¾ dl kókosolía (mjúk en ekki fljótandi)
150 ml kókosmjólk eða önnur jurtamjólk
750g spelt (t.d. fínt og gróft til helminga)
4 tsk engiferduft
2 tsk kanill
½ tsk negull
½ tsk matarsódi

Aðferð

  1. Setjið hlynsíróp, kókospálmasykur, kókosolíu og (kókos)mjólk í hrærivél og hrærið saman.
  2. Blandið saman spelti og kryddi og setjið út í og klárið að hnoða deigið.
  3. Vefjið deiginu inn í plastfilmu og setjið inn í kæli. Ef þið ætlið að baka strax úr því er gott að hafa deigið ekki mikið lengur en ca 20 mín í kælinum. En deigið geymist i viku í kæli. Ef þið hafið geymt deigið til síðari nota í kæli er gott að taka þann hluta deigsins sem á að nota tímanlega úr kælinum og leyfa því að standa við stofuhita í klst til að mýkjast aðeins, þá verður auðveldara að fletja það út.
  4. Fletjið út deigið og skerið út piparkökur með uppáhalds formunum ykkar.
  5. Bakið við 200° í 8 mín. Bökunartíminn fer þó aðeins eftir þykktinni á kökunum, þykkari kökur þurfa örlítið lengri tíma en þunnar. Fylgist vel með.
  6. Skreytið með fallegum litum.

Vínrauður glassúr

  1. Pressið nokkur hindber (frosin og afþýdd) í gegnum sigti, þannig að þið náið öllu nema fræjunum í bolla. (Nýtið fræin í sjeik eða útá graut eða bara beint uppí munn).
  2. Bræðið saman kókospálmasykur, smá kakósmjör og steinlaust hindberjamaukið við vægan hita, hrærið saman og látið síðan kólna aðeins.
  3. Skreytið kökurnar.
  4. Njótið samverunnar um aðventuna

comments powered by Disqus