13/7

Vatnsmelónudrykkur

Færsla skrifuð 13. júlí 2016

Vatnsmelónur eru svo sumarlegar. Þær geta verið svalandi og dísætar að bíta í, sérstaklega þegar melónan er passlega þroskuð. Eins dásamlegt og það er að njóta góðrar vatnsmelónu, þá geta það verið mikil vonbrigði að opna bragðlaust eða mjölkennt eintak. Internetið margfróða lumar á ýmsum ráðum fyrir þá sem langar að læra að velja sér passlega þroskaðar melónur. Til dæmis á þroskuð vatnsmelóna að vera þung miðað við stærð og svo á að koma holur hljómur þegar bankað er létt á melónuna. Ætli þetta sé ekki eitthvað sem kemur með reynslunni, að meta þyngd og hljómfall melónu...  

Svo er annað sem gott er að vita. Vatnsmelónur liggja á jörðinni á meðan þær eru að þroskast og flötur melónunnar sem snertir jörðina verður ekki grænn heldur myndast þar gulur blettur. Ef þessi blettur er mjög ljós bendir það til þess að melónan hafi verið týnd of snemma. Melóna með gulum bletti ætti því að vera sætari og bragðmeiri. En til að ganga úr skugga um að melónan sé heldur ekki ofþroskuð er ráðlagt að ýta lauslega á enda melónunnar þeim megin sem guli bletturinn er, ef hún gefur of mikið eftir er líklegt að hún sé ofþroskuð. Sjálfar erum við svo sem engir sérstakir sérfræðingar í að velja melónur, en æfingin skapar vonandi melónumeistara.

Núna yfir hásumarið finnst okkur voða gott að útbúa svalandi vatnsmelónudrykk með jarðarberjum og engifer. Drykkurinn er langbestur ef melónan er sæt og góð, en ef hún er bragðlítil má bæta það upp með smávegis sætu eins og hlynsírópi.

Uppskriftin

400g vatnsmelóna (án hýðis)
100g jarðarber 
1 tsk engiferskot (pressaður engifersafi)
1/2 tsk sítrónusafi
fullt af klökum
(1 msk hlynsíróp ef vill)

Aðferðin

  1. Afhýðið vatnsmelónuna og setjið í blandara ásamt jarðarberjum, engiferskoti og sítrónusafa.
  2. Síið ef þið viljið hafa drykkinn trefjalítinn.
  3. Smakkið. Ef vatnsmelónan var ekki mjög sæt má bæta 1 msk af sætu (t.d. hlynsírópi) út í og blanda.
  4. Setjið í glös ásamt fullt af klaka og hlakkið til að njóta.

comments powered by Disqus