16/8

Vegan pizza

Færsla skrifuð 16. ágúst 2016

Við mæðgur erum hrifnar af pizzum (eins og kannski flestir). Okkur finnst heimabakaðar þunnbotna pizzur bestar og notum alltaf sömu einföldu uppskriftina fyrir botninn.

Við njótum þess að skreyta pizzuna með fallegu grænmeti. Nýtt og ferskt grænmeti er bara listaverk útaf fyrir sig! Oft prófum við okkur áfram með skurðinn á grænmetinu og allskyns falleg munstur koma í ljós. 

Hér er okkar útgáfa af vegan pizzu.

Uppskriftin

2 pizzubotnar

250g spelt (fínt og gróft til helminga)
2 tsk vínsteinslyftiduft
½ tsk sjávarsalt
2 msk jómfrúarólífuolía
140 ml volgt vatn

Aðferð

  1. Setjið þurrefnin í skál, bætið olíunni og vatninu út í og hrærið deigið saman með gaffli.
  2. Hnoðið deigið örstutt og fletjið út tvo þunna botna. (Ef deigið er blautt, stráið smá spelti áður en fletjið út)
  3. Forbakið botnana við um 190°C í 2-3 mín.
  4. Setjið áleggið á sem fyrst eftir að botnarnir koma úr ofninum.

Álegg fyrir 1 pizzu

2-3 msk Vegan majones, kryddað EÐA heimalagað spicy mayo úr kasjúhnetum (sjá uppskrift hér)
1-2 dl rifinn Vegan ostur
1-2 msk Vegan parmesan (ef vill)
150g grænmeti í þunnum sneiðum (við notuðum hvítlauk, brokkolí, fjólubláa gulrót og röndótta rauðrófu)
jómfrúarólífuolía til að pensla grænmetið með
Sjávarsaltflögur og chiliflögur

Aðferð

  1. Smyrjið majonesinu á forbakaðan botninn, stráið ostinum yfir, raðið grænmetinu ofan á og penslið með smá ólífuolíu.
  2. Stráið smávegis af sjávarsaltflögum og chiliflögum yfir.
  3. Bakið pizzuna við 190°C í um 7-10 mín eða þar til osturinn hefur bráðnað og er orðinn örlítið gullinn.
  4. Pizzan er lang best nýkomin úr ofninum.
  5. Mjög gott er að bera fram smávegis auka mayo, grænmeti og granateplakjarna með pizzunni.

comments powered by Disqus