15/4

Vor í lofti

Færsla skrifuð 15. apríl 2015

Nú þegar sólin hækkar á lofti og dagarnir lengjast í báða enda gerir vorfiðringurinn vart við sig. Er þetta ekki dásamlegur tími? Þó svo að enn eimi eftir af vetrinum, svona af og til, þá eru lítil bjartsýnisfræ farin að skjóta rótum og tilhlökkun byggist upp. Það er alltaf ákveðinn léttir að kveðja langan vetur.

Okkur mæðgunum finnst tilvalið að fagna vorinu með þessum fagurgula túrmerik-chia sjeik. Við notuðum Hugmyndabankann okkar til að fá innblástur. Sjeikin er passlega sætur fyrir okkar smekk, en þeir sem vilja hafa hann sætari geta prófað að setja ferskan ananassafa í staðinn fyrir vatn, þá breytist hann í sælkerasjeik.

Hráefnið er fallegt í eftirmiddags vorsólinni.

Uppskriftin

- í 2 glös
1 tsk chiafræ
4-6 apríkósur
3 dl vatn
1 meðal stór gulrót eða tvær litlar
2 dl mangó
5 basillauf
1 msk sítrónusafi
1 msk engiferskot
½ tsk turmerik krydd eða 2-3 cm fersk turmerikrót
¼ tsk malaður svartur pipar
5 - 6 klakar

Aðferðin 

  1. Leggið 4-6 aprikósur í bleyti í 3 dl af vatni í um 15 mínútur
  2. Ekki hella íbleytivatninu af, við notum það í sjeikinn
  3. Skerið gulrætur og mangó niður í minni bita áður en sett í blandarann
  4. Blandið öllu saman í blandara, 60 sek ættu að nægja

Njótist í rólegheitum

comments powered by Disqus